KA áfram í 16-liða úrslit

Fótbolti
KA áfram í 16-liða úrslit
Mynd frá Sindravöllum í dag.

KA vann í dag stórsigur á Sindra á Höfn í Hornafirði 0-5 en staðan í hálfleik var 0-2 KA í vil. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði þrennu í leiknum.

Sindri 0 - 5 KA

0 - 1 Daníel Hafsteinsson (’15) Stoðsending: Sæþór
0 - 2 Sjálfsmark (’37) Stoðsending: Hallgrímur Mar
0 - 3 Hallgrímur Mar Steingrímsson – Víti (’74) 
0 - 4 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’79)
0 - 5 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’84) Stoðsending: Daníel
0 - 5 Rautt spjald: Ingvi Þór Sigurðsson (’88)

Lið KA:

Kristijan, Haukur Heiðar, Brynjar Ingi, Torfi Tímóteus, Hrannar Björn, Andri Fannar, Almarr Ormars, Daníel, Þorri Mar, Hallgrímur Mar og Sæþór Olgeirs.

Bekkur:

Aron Dagur, Ólafur Aron, Elfar Árni, Ottó Björn, Birgir Baldvins, Steinþór Freyr og Bjarni Aðalsteins.

Skiptingar:

Bjarni Aðalsteins inn – Brynjar Ingi út (’62)
Ólafur Aron inn – Þorri Mar út (’62)
Ottó Björn inn – Almarr út (’75)

KA og Sindri mættust í dag á Höfn í Hornafirði í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. KA liðið gerði sex breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn ÍA á laugardaginn. Lið Sindra leikur í 3. deildinni og í fyrsta skipti í ríflega 19 ár sem liðin mætast.

Það var napur vindur sem blés í bakið á KA liðinu í fyrri hálfleik og var liðið í eilitlum vandræðum með að finna taktinn á upphafsmínútum í lengd sendinga og öðru en þegar að liðin var um stundarfjórðungur braut KA liðið ísinn. Þá átti Haukur Heiðar flotta sendingu inn fyrir vörn Sindra sem Sæþór gerði vel í að elta uppi og gaf hann fyrir markið þar sem Daníel Hafsteinsson mætti eins og gammur í markteiginn og mokaði boltanum yfir línuna og kom KA yfir í leiknum.

Nokkru seinna áttu heimamenn í Sindra sitt langbesta færi en þá komust þeir mjög ákjósanlegt marktækifæri en Kristijan Jajalo sem stóð í markinu í sínum fyrsta leik fyrir KA varði vel og bjargaði því að Sindramenn jöfnuðu leikinn.

Hallgrímur átti síðan hörku skot utan teigs sem hafnaði í stönginni og máttu minnstu muna að þessi þrumufleygur hefði endað í netinu.

Á 37. mínútu fékk KA hornspyrnu sem Hallgrímur Mar tók og var hún afbragðs góð og endaði hjá Brynjari Inga sem í barningi við varnarmann Sindra kom boltanum í netið og líklegast um sjálfsmark að ræða og KA komið í 0-2 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikur var rólegur framan af en þegar að stundarfjórðungur var eftir setti KA liðið í fimmta gír og þá héldu þeim enginn bönd.

Haukur Heiðar átti laglegan sprett sem lauk með sendingu á Daníel Hafsteins sem var felldur innan teigs og vítaspyrna réttilega dæmd og á punktinn steig Hallgrímur Mar og skoraði hann með skoti niðri hægra megin framhjá markverði heimamanna sem fór þó í rétt horn. Við þriðja mark KA gekk liðið á lagið. Hallgrímur Mar var aftur að verki stuttu seinna en þá átti Hrannar sendingu upp í horn á Daníel Hafsteins sem gaf fyrir og endaði boltinn hjá Hallgrími sem kláraði færið af öryggi og KA komið í 4-0.

Hallgrímur fullkomnaði þrennuna svo á 84. mínútu þegar að hann fylgdi eftir eigin skoti í teignum og 5-0 sigur KA innsiglaður. Heimamenn í Sindra fengu síðan rautt spjald undir restina þegar að Ingvi Þór Sigurðsson fékk að líta sitt seinna gula spjald en það breytti litlu og flautaði Guðgeir dómari leiksins til leiksloka stuttu seinna.

Flottur leikur hjá KA liðinu og voru þeir ófyrirleitnir í nálgun sinni á leikinn og stigu fast til jarðar. Svona verkefni geta verið slungin og mætti KA liðið vel til leiks og bar virðingu fyrir verkefninu.

Fjórir leikmenn léku sinn fyrsta mótsleik fyrir KA í dag en það voru þeir Bjarni Aðalsteinsson, Ottó Björn Óðinsson, Þorri Mar Þórisson og Kristijan Jajalo. Einnig lék Haukur Heiðar Hauksson sem fyrsta leik fyrir KA í langan tíma eftir að hafa verið út í Svíþjóð í atvinnumennsku.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Skoraði þrennu og ógnaði sífellt með árásum sínum á varnarmenn Sindra. Öryggið uppmálað fyrir framan mark andstæðinganna og greinilegt að Grímsi er á skotskónum í sumar enda kominn með 4 mörk í fyrstu tveimur leikjum sumarsins, sem er vel.)

Dregið verður í bikarnum á morgun og eru þetta liðin sem KA getur mætt í 16-liða úrslitum:

Vestri

Fjölnir

Þróttur R.

Njarðvík

Grindavík

Keflavík

Víkingur R.

Fylkir

ÍA

HK

Völsungur

KR

Breiðablik

ÍBV

FH

Næsti leikur KA er af dýrari gerðinni og er hann á sunnudaginn þegar að við fáum Íslandsmeistara Vals í heimsókn á Greifavöllinn. Hefst leikurinn kl. 16.00 og hvetjum við alla KA menn að fjölmenna á völlinn og styðja KA liðið til sigurs. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is