Jóan Símun Edmundsson í KA!

Fótbolti
Jóan Símun Edmundsson í KA!
Velkominn í KA!

KA barst heldur betur góður liðsstyrkur í dag þegar Jóan Símun Edmundsson skrifaði undir samning út núverandi tímabil. Jóan sem verður 32 ára gamall á morgun er gríðarlega öflugur framherji sem er lykilmaður í færeyska landsliðinu þar sem hann hefur leikið 79 landsleiki og gert í þeim 8 mörk.

Jóan hóf feril sinn með B68 Toftir í Færeyjum og hefur átt gríðarlega flottan feril þar sem hann hefur leikið með stórum liðum eins og Newcastle, Viking, Fredericia, Vejle, OB, Arminia Bielefeld og loks Beveren. Jóan var laus allra mála hjá Beveren og gat því gengið í raðir KA strax.

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA lék með Jóan með liði OB í Danmörku og ber honum afar vel söguna. Það fer ekki á milli mála að hér er á ferðinni hörkuleikmaður enda sannað sig í efstu deild í Þýskalandi og Danmörku sem og með landsliði Færeyja.

KA liðið stendur í ströngu á þremur vígsstöðvum og afar sterkt að fá Jóan í okkar raðir fyrir þau átök. Strákarnir taka á móti Dundalk í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á Framvellinum á fimmtudaginn og viku síðar mætast liðin ytra. Þá eru strákarnir komnir í bikarúrslitaleikinn auk þess sem gríðarlega hörð barátta er í Bestu deildinni.

Það verður frábært að fylgjast með þessum öfluga kappa í gula og bláa búningnum og bjóðum við hann hjartanlega velkominn í KA. Minnum á að miðasala á stórleikinn gegn Dundalk á fimmtudaginn er í fullum gangi í Stubb og aldrei að vita nema Jóan leiki þar sinn fyrsta leik fyrir KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is