Ívar Arnbro áfram í undankeppni EM með U19

Fótbolti

Ívar Arnbro Þórhallsson lék með U19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu sem keppti í fyrstu umferð undankeppni EM 2025 á dögunum. Riðill Íslands fór fram í Moldóvu þar sem íslenska liðið mætti Aserbaídsjan, Moldóvu og Írlandi.

Ívar varð fyrir því óláni að meiðast rétt fyrir fyrsta leik sem var gegn Aserbaídsjan. Þann leik vann íslenska liðið 2-0 og í kjölfarið vannst sterkur 1-0 sigur á liði heimamanna í Moldóvu.

Ívar náði að hrista meiðslin af sér og kom inn í liðið fyrir lokaleikinn gegn Írum sem var úrslitaleikur um sigur í riðlinum, íslenska liðið var þó búið að tryggja sér sæti í næstu umferð fyrir leikinn. Þrátt fyrir 1-2 tap stóð Ívar sig vel í leiknum og átti nokkrar góðar vörslur.

Ekki nóg með að tryggja sæti í næstu umferð forkeppni EM stoppaði Ívar svo á heimleiðinni hjá danska stórliðinu Brøndby þar sem hann tók þrjár æfingar. Við óskum Ívari og liðsfélögum hans til hamingju með þennan flotta árangur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is