Flýtilyklar
Hólmar Örn ráðinn í þjálfarateymi KA
Hólmar Örn Rúnarsson kemur inn í þjálfarateymi meistaraflokks KA í knattspyrnu sem og 2. flokss karla en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag og er því samningsbundinn félaginu út sumarið 2024.
Þetta eru afar jákvæðar fréttir en Hólmar Örn er bæði margreyndur sem leikmaður auk þess sem hann hefur komið öflugur inn í þjálfun undanfarin ár en hann var síðast aðstoðarþjálfari Njarðvíkur þar sem hann aðstoðaði Bjarna Jóhannesson fyrrverandi þjálfara KA.
Hólmar er uppalinn í Keflavík þar sem hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki sumarið 2000. Hann gekk í raðir danska liðsins Silkeborg árið 2006 og lék þar til ársins 2008 þegar hann gekk aftur í raðir Keflavíkur. Þaðan gekk hann í raðir FH-inga árið 2011 áður en hann sneri aftur heim árið 2015. Hann varð Íslandsmeistari með FH og tvívegis Bikarmeistari með Keflavík.
Undanfarin tvö ár hefur Hólmar verið aðstoðarþjálfari Njarðvíkur en liðið vann sigur í 2. deild á nýliðnu sumri og komst í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Við erum afar spennt fyrir komu Hólmars í KA og hlökkum til að sjá hann koma inn í okkar öfluga hóp og aðstoða Hallgrím Jónasson aðalþjálfara liðsins í komandi baráttu.