Hallgrímur Mar markahæstur í sögu KA

Fótbolti

Hallgrímur Mar Steingrímsson er nú orðinn markahæsti leikmaður í sögu knattspyrnudeildar KA en hann sló metið er hann skoraði tvívegis í 2-1 sigri KA á Keflavík í gær á Greifavellinum. Samtals hefur Grímsi nú skorað 74 mörk fyrir félagið í deild og bikar.

Með mörkunum tveimur í gær fór hann upp fyrir Hrein Hringsson sem var markahæsti leikmaður félagins með 73 mörk. Samtals hefur Grímsi nú gert 74 mörk í deild og bikar fyrir KA en 65 þeirra hafa komið í deildarkeppni og 9 í bikarleikjum. Í tilefni áfangans tókum við saman smá markasyrpu sem við hvetjum alla til að kíkja á.


Glæsileg markaveisla með Grímsa!

Auk þess er hann leikjahæsti leikmaður félagsins með 242 leiki í deild og bikar. Þá er hann einnig markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með 34 mörk. Grímsi mun væntanlega halda áfram að bæta við þessi glæsilegu met sín en hann skrifaði á dögunum undir nýjan samning við félagið sem gildir út tímabilið 2023.

Þrívegis hefur Hallgrímur skorað þrennu fyrir KA en hann gerði fyrst þrennu í heimaleik gegn ÍBV í efstu deild sumarið 2017. Sumarið 2019 gerði hann svo þrennu í bikarleik gegn Sindra en hann gerði þrennuna á aðeins tíu mínútna kafla. Þá skoraði hann einnig þrennu gegn Gróttu á Seltjarnarnesi á síðustu leiktíð er liðin mættust í efstu deild.


Flest marka Hallgríms hafa komið gegn Grindavík en alls hefur hann skorað gegn 29 félögum

Hallgrímur gekk til liðs við KA aðeins 18 ára gamall en hann er uppalinn í Völsung á Húsavík og er gríðarlegur keppnismaður sem gefur sig ávallt allan fyrir félagið. Undanfarin ár hefur Hallgrímur verið einn besti leikmaður efstu deildar og hlotið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína.

Grímsi er ákaflega vel að þeim heiðri kominn að bera öll þessi félagsmet hjá KA og óskum við honum innilega til hamingju með áfangana og hlökkum til að sjá hann halda áfram að bæta metin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is