Hallgrímur Mar leikið 203 leiki í röð fyrir KA!

Fótbolti

Hallgrímur Mar Steingrímsson heldur áfram að skrifa söguna með því bæta félagsmet sín fyrir KA en hann er leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins auk þess að vera sá markahæsti. Hann gerði svo gott betur í sumar og bætti við Íslandsmeti er hann lék sinn 182 deildarleik í röð fyrir KA.

Grímsi lék alla leiki KA í sumar í deild, bikar og Evrópu og er þetta sjöunda árið í röð sem hann leikur alla keppnisleiki KA. Hann missti af einum bikarleik í upphafi sumars 2016 og hefur nú leikið 203 keppnisleiki í röð fyrir félagið án þess að missa úr leik sem er að sjálfsögðu félagsmet. Hann hefur því aðeins misst úr einn leik frá því hann sneri aftur í KA fyrir sumarið 2016.

Eins og áður segir eru deildarleikirnir nú orðnir 182 talsins sem Grímsi hefur leikið samfleytt fyrir KA og er það Íslandsmet. Aðeins tveir leikmenn í sögunni hafa leikið fleiri deildarleiki samfleytt en það eru Birkir Kristinsson með 198 leiki í röð fyrir ÍA og Fram sem og Gunnar Oddsson með 186 deildarleiki í röð fyrir Leiftur, KR og Keflavík.

Ef allt fer að óskum nær Grímsi að slá met Birkis á næstu leiktíð en hvort sem það gerist eður ei er afrek hans gífurlegt.

Samtals hefur Grímsi nú leikið 320 leiki fyrir KA í deild, bikar og Evrópu sem er félagsmet og fékk hann afhenda viðurkenningu fyrir 300. leiki fyrir félagið nú á dögunum. Ekki nóg með það að þá hefur hann einnig leikið 160 leiki í efstu deild fyrir KA sem er einnig félagsmet.

Á nýliðnu sumri skoraði Grímsi 10 mörk og er hann nú kominn með 98 mörk fyrir KA sem gerir hann að markahæsta leikmanni félagsins. Hann er einnig markahæsti leikmaður KA í efstu deild með 53 mörk. Þá er hann jafn þeim Daníel Hafsteinssyni og Sveini Margeiri Haukssyni yfir flest Evrópumörk fyrir KA en allir hafa þeir gert tvö slík.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is