Hallgrímur Mar bestur - Ingimar efnilegastur

Fótbolti
Hallgrímur Mar bestur - Ingimar efnilegastur
Grímsi með verðlaun sín sem besti leikmaðurinn

Lokahóf knattspyrnudeildar KA fór fram um helgina eftir frábæran sigur á HK í lokaumferð Bestu deildarinnar. KA kláraði eftirminnilegt sumar með stæl en strákarnir unnu afar sannfærandi sigur í neðri hluta Bestu deildarinnar eftir að hafa farið í bikarúrslit og þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Það var því eðlilega mikil gleði á lokahófinu en KA lék í sumar sinn fyrsta bikarúrslitaleik í 19 ár auk þess að leika í fyrsta skiptið í Evrópukeppni í 20 ár. Ekki nóg með það að þá brutu strákarnir blað í sögu félagsins með því að vinna tvö einvígi en KA hafði aldrei í sögunni unnið einvígi í Evrópukeppni.

Hallgrímur Mar Steingrímsson var kjörinn besti leikmaður KA á tímabilinu en Grímsi átti eins og svo oft áður frábært sumar. Hann lék alla leiki KA í sumar sem gerir alls 38 leiki en auk þess var hann einnig markahæsti leikmaður liðsins með 10 mörk. Ekki nóg með það að þá átti Grímsi einnig fjölmargar stoðsendingar og heldur hann áfram að raða inn metum hjá KA.

Grímsi er leikjahæsti leikmaður í sögu KA en hann er nú kominn með 320 leiki í deild, bikar og Evrópu og kom 300. leikur hans fyrir KA í sumar. Hann hefur leikið 160 leiki fyrir KA í efstu deild sem er einnig met og þá hefur hann nú leikið 182 deildarleiki KA í röð sem er félagsmet sem og Íslandsmet að því leiti að hann hefur leikið alla þessa leiki fyrir sama félagið.

Auk þess er Grímsi markahæsti leikmaður í sögu KA en hann hefur nú gert 98 mörk í deild, bikar og Evrópu. Þá varð hann fyrsti leikmaður KA sem hefur skorað 50 mörk fyrir félagið í efstu deild í sumar en hann hefur nú alls gert 53 mörk í efstu deild. Þá er hann jafn þeim Daníel Hafsteinssyni og Sveini Margeiri Haukssyni yfir flest Evrópumörk fyrir KA en allir hafa þeir gert tvö slík.

Ingimar Torbjörnsson Stöle var kjörinn efnilegasti leikmaður KA á tímabilinu en Ingimar sem gekk í raðir KA fyrir sumarið sló heldur betur í gegn og stimplaði sig inn sem einn af lykilmönnum liðsins þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gamall. Ingimar vann sig fljótt inn í lið KA og lék alls 23 leiki í sumar.

Ingimar er fastamaður í U19 ára landsliði Íslands og klárt að það verður afar spennandi að fylgjast áfram með framgöngu hans næstu árin.

Hrannar Björn Steingrímsson lék í sumar sinn 200. leik fyrir KA í deild, bikar og Evrópu. Hrannar sem er uppalinn hjá Völsung kom 21 árs í KA fyrir sumarið 2014 og hefur alla tíð síðan verið í lykilhlutverki hjá félaginu. Hann hefur nú leikið 205 leiki fyrir KA og hafa 115 þeirra verið í efstu deild.

Hrannar framlengdi á dögunum samning sinn við KA og afar jákvætt að halda þessum frábæra kappa áfram innan okkar raða og ljóst að leikir hans fyrir KA verða því enn fleiri.

Ívar Örn Árnason lék sinn 100. leik fyrir KA í sumar en Ívar er grjótharður KA-maður sem brennur svo sannarlega fyrir félagið. Á undanförnum árum hefur hann stimplað sig inn sem einn besti varnarmaður deildarinnar en hann hefur nú leikið 121 leik fyrir KA og þar af hefur 81 leikur verið í efstu deild.

Ívar er annar fyrirliða liðsins og leiddi KA liðið inn í sjálfan bikarúrslitaleikinn. Ívar hefur gert 4 mörk fyrir KA og komu þrjú af þeim í bikarkeppninni í sumar og átti hann því stóran þátt í bikarvegferðinni. Faðir hans, Árni Freysteinsson lék fyrsta bikarúrslitaleik KA sumarið 1992 og varð þar áður Íslandsmeistari með liðinu sumarið 1989.

Daníel Hafsteinsson lék einnig sinn 100. leik fyrir KA í sumar en Danni er eins og flestir ættu að vita uppalinn hjá KA og verið í lykilhlutverki frá því hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sumarið 2017. Hann hefur nú leikið 119 leiki fyrir KA, þar af 102 í efstu deild. Í millitíðinni lék hann með sænska liðinu Helsingborgs sem og FH.

Danni framlengdi samning sinn við KA fyrr í sumar og heldur því áfram að bæta við leikjum fyrir félagið á næsta tímabili. Danni hefur nú skorað 13 mörk fyrir KA en tvö af þeim komu í Evrópuverkefnum sumarsins og lék hann þar eftir afrek föður síns en Hafsteinn Jakobsson gerði fyrsta Evrópumark KA sumarið 1990 í 1-0 sigri á CSKA Sofia.

Ragnar Már Þorgrímsson var að lokum veittur Dorrinn en Dorrinn er veittur dyggum stuðningsmanni og er til minningar um Steindór heitinn Gunnarsson, sem lést árið 2011 og var einn af heitustu KA-mönnum á Akureyri, er forláta bifreið af gerðinni Benz - í miniútgáfu. Það þótti við hæfi, enda átti Steindór lengi slíkan bíl.

Ragnar Már eða Raggi Bútur eins og hann er iðulega kallaður er heldur betur vel að heiðrinum kominn en Raggi hefur unnið gífurlega mikið starf í kringum knattspyrnudeild KA hvort sem er hjá meistaraflokki félagsins eða yngriflokkunum. Þá vann hann ómetanlegt starf í kringum þá uppbyggingu sem hafist var handa við að gera æfingavöll okkar KA manna að keppnisvellinum sem við notumst við í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is