Flýtilyklar
Greifamót KA tókst afar vel um helgina
Um helgina fór fram Greifamót KA en það er mót fyrir 7. flokk kvenna. Þetta er þriðja árið sem mótið fer fram hér á KA-svæðinu og tókst mótið afar vel upp. Gleðin var í fyrirrúmi hjá stelpunum sem og aðstandendum þeirra og ekki skemmdi fyrir að veðurguðirnir voru góðir við okkur um helgina. Við erum í skýjunum með hve vel tókst upp á mótinu og hlökkum við strax til næsta árs.
Alls var leikið í fjórum deildum og hétu þær eftir litum. Í gulu deildinni stóð Þróttur uppi sem sigurvegari en KA og KA 2 fylgdu á eftir í næstu sætum. Í rauðu deildinni sigraði lið ÍR, Víkingur og Þróttur komu næst á eftir. Í grænu deildinni stóð Víkingur 3 uppi sem sigurvegari og næst á eftir komu Höttur og Þróttur 3. Í bláu deildinni stóð Höttur 3 uppi sem sigurvegari og þar á eftir komu Víkingur 5 og Höttur 2.
Eins og undanfarin ár þá gistu stelpurnar í Lundarskóla sem er við hliðina á KA-svæðinu, einnig var boðið upp á morgun-, hádegis-, og kvöldverð á mótinu í sal Lundarskóla.
Einnig fóru allar stelpurnar í bíó og sund, þá sló kvöldskemmtun á laugardagskvöldinu í gegn en það var dansskemmtun með Evu Reykjalín.
Margar af stelpunum voru að spila þarna á sínu fyrsta fótboltamóti og fengu þær allar þátttökupening.