Flýtilyklar
Góður bikarsigur á KA-vellinum (myndaveislur)
KA tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær með sannfærandi 4-1 sigri á Reyni Sandgerði en leikurinn var fyrsti heimaleikur sumarsins sem leikinn var á KA-vellinum. KA verður því í pottinum en alls duttu fimm lið úr Bestu deildinni úr leik í 32-liða úrslitum.
Fyrirfram reiknuðu flestir með sigri KA liðsins enda KA í 2. sæti Bestu deildarinnar á meðan Reynismenn eru í neðsta sæti 2. deildar. Það skiptir hinsvegar engu máli í bikarnum og var þó nokkuð um það að lið sem eru deild eða jafnvel deildum neðar en andstæðingar sínir fóru áfram í 16-liða úrslitin.
Þeir Egill Bjarni Friðjónsson, Sævar Geir Sigurjónsson og Þórir Tryggvason ljósmyndarar voru á svæðinu og bjóða allir upp á myndaveislur frá leiknum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framtakið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum
Arnar Grétarsson gerði alls 10 breytingar á KA liðinu frá síðasta leik og var því kannski eðlilegt að það hafi verið smá hikst á spilamennsku liðsins framan af í gær. Jakob Snær Árnason kom þó KA yfir strax á 15. mínútu með laglegu skoti rétt utan teigs alveg út við stöng og önduðu væntanlega flestir stuðningsmenn liðsins aðeins léttar.
En Reynismenn spiluðu agaðan leik og létu markið ekki á sig fá. Á 24. mínútu tókst þeim að jafna metin er Elton Renato Barros skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu en Elton var aleinn eftir einhvern misskilning í vörn KA-liðsins.
Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleiknum þrátt fyrir ágætar tilraunir KA-liðsins en eins og áður segir voru Reynismenn agaðir og spiluðu góðan varnarleik.
Strákarnir náðu hinsvegar forystunni á nýjan leik á 56. mínútu þegar Steinþór Freyr Þorsteinsson átti skot á markið en Elfar Árni Aðalsteinsson náði að pikka í boltann sem breytti þá um stefni og fór þaðan rakleiðis í netið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Skömmu síðar gerði Þorri Mar Þórisson svo útum leikinn með þriðja marki KA liðsins en Andri Fannar Stefánsson renndi boltanum inn fyrir á Elfar Árna sem var rangstæður svo hann lét hann vera og Þorri Mar kom í kjölfarið og renndi boltanum í netið. Reynismenn vildu meina að Elfar Árni hefði áhrif á leikinn en dómarar leiksins töldu svo ekki vera og markið stóð því.
Leikurinn fjaraði í raun út í kjölfarið enda úrslitin ráðin. Afar gaman var þó að sjá tvöfalda skiptingu KA-liðsins á 80. mínútu þegar þeir Mikael Breki Þórðarson og Valdimar Logi Sævarsson komu inn á en leikurinn er fyrsti keppnisleikur þeirra fyrir meistaraflokk.
Hallgrímur Mar Steingrímsson hafði komið inná skömmu áður og hann kláraði leikinn endanlega með stórkostlegu marki er hann þrumaði boltanum í stöngina og inn fyrir utan teig og lokatölur því 4-1 sigur KA.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
Sannfærandi sigur að lokum en gestirnir úr Sandgerði geta verið stoltir af sinni framgöngu. Strákarnir okkar þurftu að hafa þó nokkuð fyrir sigrinum. Vissulega spilaði inní að þessar fjölmörgu breytingar sem gerðar voru á KA-liðinu höfðu áhrif á spilamennskuna en þegar upp er staðið er það afar jákvætt að sjá breyddina í hópnum og að sæti í næstu umferð sé tryggt.
Eins og áður sagði þá duttu fimm lið úr Bestu deildinni úr leik í 32-liða úrslitum og því aðeins sjö eftir í keppninni. Nágrannar okkar í Dalvík/Reyni í 3. deildinni eru eina liðið úr þeirri deild sem eru eftir í keppninni og þá eru þrjú lið úr 2. deild enn í pottinum. Það verður því afar áhugavert að sjá hverjir verða mótherjar okkar í næstu umferð.