Flýtilyklar
Fyrsti sigur KA í Vesturbænum frá 1981
KA gerði ansi góða ferð í Vesturbæinn í dag er liðið lagði KR að velli 1-3 en leikurinn var liður í 2. umferð Pepsi Max deildarinnar. Fyrir leik var KA með eitt stig en KR-ingar voru með þrjú á toppnum.
Fyrir leik var mikið rætt um að KA hafði ekki skorað í síðustu sex leikjum sínum gegn KR en auk þess hafði KA ekki unnið útisigur á KR frá árinu 1981. Þá vann KA 0-1 sigur þar sem Hinrik Þórhallsson skoraði eina mark leiksins en markið kom skömmu fyrir leikslok eftir að KA liðið hafði stýrt ferðinni.
Það varð ljóst strax frá upphafsflautinu að KA liðið var mætt til leiks til að sækja þrjú stig og strákarnir tóku strax völdin á vellinum. Markið lá í loftinu og það kom strax á 10. mínútu þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson renndi boltanum í netið rétt fyrir utan teig eftir gott samspil við bróður sinn.
Áfram héldu strákarnir að þjarma að KR-ingum og á 28. mínútu tvöfaldaði Brynjar Ingi Bjarnason forystuna með góðum skalla eftir aukaspyrnu frá Hallgrími og útlitið heldur betur gott.
Skömmu síðar lentu Rodrigo Gomes og Óskar Örn Hauksson leikmaður KR í þungum árekstri. Það tók þó nokkurn tíma að huga að Rodri sem kom að lokum aftur til leiks en gekk greinilega ekki alveg heill til skógar og fór að lokum útaf í hálfleik.
Ásgeir Sigurgeirsson virtist svo hafa gert þriðja mark KA á 40. mínútu þegar samskiptaleysi í vörn KR hreinlega gaf honum boltann fyrir framan autt mark en markið stóð ekki þar sem hendi var dæmd á Ásgeir. Þess í stað tókst heimamönnum að laga stöðuna og galopna leikinn rétt fyrir hlé er Guðjón Baldvinsson þrumaði boltanum í netið á nærstöngina.
Þetta nýttu KR-ingar sér í síðari hálfleik á sama tíma og KA liðið féll aftar á völlinn og beitti skyndisóknum þegar færi gafst. Þrátt fyrir að KR væri miklu meira með boltann í síðari hálfleik tókst þeim sjaldan að skapa usla við mark KA.
Á 71. mínútu gerði Hallgrímur Mar afskaplega vel í að ná boltanum af Beiti markverði KR en setti boltann að lokum framhjá markinu með hælspyrnu. Grímsi hafði líklega örlítið meiri tíma en hann bætti fyrir það á 78. mínútu er hann gerði þriðja mark KA með hnitmiðuðu skoti út við fjærstöngina eftir góðan undirbúning frá Daníel Hafsteinssyni.
Þrátt fyrir ágætistilraunir urðu mörkin ekki fleiri og sanngjarn 1-3 sigur KA því staðreynd. Það er risastórt að sækja þrjú stig á Meistaravelli og á liðið okkar mikið hrós skilið fyrir virkilega góðan leik. Spilamennskan í fyrri hálfleiknum var frábær og þá var sterkt að sjá vinnusemina í þeim síðari er KR-ingar réðu för.
KA er því með 4 stig að loknum fyrstu tveimur leikjum sumarsins og verður afar spennandi að sjá hvort við náum að halda sama dampi á miðvikudaginn þegar KA tekur á móti Leikni á Dalvíkurvelli í fyrsta "heimaleik" sumarsins.