Frækinn útisigur KA á Nomads (myndaveisla)

Fótbolti

KA liðið gerði sér lítið fyrir og vann frækinn 0-2 útisigur á liði Connah's Quay Nomads í síðari leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á dögunum. Strákarnir tryggðu sér þar með sæti í næstu umferð með því að vinna einvígið samtals 4-0.

KA liðið skrifaði Evrópusögu sína upp á nýtt í einvíginu en þetta er í fyrsta skiptið sem KA vinnur einvígi í Evrópukeppni. Sigurleikirnir í Evrópu eru nú orðnir þrír og mörkin sjö talsins. Daníel Hafsteinsson skoraði í báðum leikjunum gegn Nomads og er nú markahæsti leikmaður KA í Evrópu.


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir frá leiknum

KA var í góðri stöðu eftir fyrri leikinn sem vannst 2-0 á Framvellinum og ekki versnaði staðan þegar Danni kom KA í 0-1 snemma leiks á Park Hall. Elfar Árni Aðalsteinsson kláraði verkefnið svo endanlega þegar hann tvöfaldaði forystuna með laglegu marki eftir að hafa komið inná sem varamaður.

Það er skammt stórra högga á milli þessa dagana en KA mætir liði Dundalk frá Írlandi í næstu umferð og fer heimaleikur KA fram á fimmtudaginn 27. júlí á Framvellinum. Miðasala er hafin í Stubb og er vert að benda á að síðast varð uppselt í VIP svæðið og því gott að tryggja sér slíkan miða strax hafir þú áhuga á því.

Síðari leikurinn fer svo fram í Dundalk viku síðar, fimmtudaginn 3. ágúst.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is