Frábær sigur á Val

Fótbolti
Frábær sigur á Val
Hallgrímur fagnar markinu. Mynd - Þórir Tryggva.

KA sigraði í dag Íslandsmeistara Vals á Greifavellinum 1-0 í 2.umferð Pepsi Max deildarinnar. Staðan í hálfleik var markalaus en Hallgrímur Mar skoraði sigurmark KA í þeim síðari.

KA 1 - 0 Valur
1 - 0 Hallgrímur Mar Steingrímsson - Víti (’54)

Áhorfendur:

1048 manns

Lið KA:

Aron Dagur, Haukur Heiðar, Torfi Tímoteus, Callum, Ýmir Már, Hrannar Björn, Almarr, Daníel, Steinþór Freyr, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Kristijan Jajalo, Ólafur Aron, Ottó Björn, Andri Fannar, Brynjar Ingi, Sæþór Olgeirs og Þorri Mar.

Skiptingar:
Brynjar Ingi inn – Haukur Heiðar út (’67)
Þorri Mar inn – Steinþór Freyr út (’67)
Andri Fannar inn – Ýmir Már út (’81)

Liðið í dag

KA mætti Íslandsmeisturum Vals í dag á iðagrænum Greifavellinum í 2.umferð Pepsi Max deildarinnar. Óli Stefán gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum í 1.umferð gegn Skagamönnum. Inn í liðið komu þeir Haukur Heiðar, Hrannar Björn og Torfi Tímoteus. Um var að ræða fyrsta heimaleik KA undir stjórn Óla Stefáns Flóventssonar og leiknum því biðið með mikillar eftirvæntni.

KA liðið hóf leikinn af krafti og fengu gestirnir í Val lítið sem ekkert að snerta boltann á fyrsta korteri leiksins.

Þegar 16. mínútur voru liðnar af leiknum átti Hallgrímur Mar sendingu á Elfar Árna sem gaf hann út fyrir á Ými Má sem átti laglega fyrirgjöf þar sem Daníel Hafsteins beið á fjærstönginni og náði skoti á markið sem Hannes í marki Vals þurfti að hafa sig allann við að verja. Flott sókn hjá KA sem voru mjög sprækir og áttu marga góða spilkafla gegn Íslandsmeisturunum sem virkuðu ekki alveg í takt við leikinn. Tíu mínútum síðar gerði KA liðið tilkall til þess að fá vítaspyrnu þegar að Hannes Halldórsson virtist fella Elfar Árna innan teigs en ekkert dæmt.

KA liðið hélt áfram að eiga góða spretti í leiknum og skömmu fyrir hálfleik átti Haukur Heiðar laglega fyrirgjöf fyrir markið sem Elfar Árni skallaði rétt framhjá markinu. Fimm mínútum fyrir hálfleik gerði KA liðið aftur tilkall til þess að fá vítaspyrnu þegar að Sebastian Hedlund handlék knöttinn þá innan teigs en ekkert dæmt og KA menn vægast sagt ósáttir.

Áfram hélt orrahríð KA að marki gestanna og mínútu síðar átti Haukur Heiðar góða sendingu fyrir markið á Hallgrím Mar sem skaut í hliðarnetið af stuttu færi og Valsmenn stálheppnir að lenda ekki undir. Valsmenn fengu nokkrar hornspyrnur í fyrri hálfleik en lítil hætta skapaðist úr þeim og var KA vörnin með Aron Dag fyrir aftan öryggið uppmálað. Staðan í hálfleik markalaus og KA liðið mikið mun betri í fyrri hálfleik og óheppið að vera ekki komnir yfir.

Valsmenn virkuðu eilítið sprækir á upphafsmínútum seinni hálfleiks en það var hins vegar eftir tæplega 8 mínútna leik sem Hallgrímur Mar átti frábæra sendingu inn fyrir á Ými Má sem tók gott hlaup og var brotið á honum innan teigs KA fékk réttilega vítaspyrnu. Hallgrímur Mar steig á punktinn og skoraði af öryggi í hægra hornið framhjá Hannesi sem fór í vitlaust horn.

Eftir markið færðu Valsmenn sig upp á skaftið og voru meira með boltann en KA liðið varðist vel sóknarþunga gestanna. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður átti Lasse Petry magnað skot að marki sem Aron Dagur gerði frábærlega að verja í horn. Boltinn tók sveig í loftinu en Aron var vel vakandi og varði vel.

Þegar að uppbótartíminn var nánast liðin komumst Þorri Mar og Andri Fannar aleinir í gegnum vörn Vals og ákvað Þorri að láta vaða á markið en Hannes varði vel og hefði Þorri átt að leggja boltann til hliðar á Andra sem var aleinn en skömmu seinna var flautað til leiksloka og sanngjarn sigur KA staðreynd.

KA liðið spilaði frábærlega í dag og var ótrúlega gaman að horfa á liðið spila. Vörnin var þétt og fengu Valsmenn nánast enginn alvöru færi í leiknum. Liðið var svo beinskeytt framávið og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk í dag. Baráttan og viljinn geggjaður.

Liðsheild KA liðsins var mögnuð í dag og var áberandi hve liðið var samheldið og barðist fyrir hvorn annnan sem er til algjörar fyrirmyndar. Stuðningurinn við liðið í dag frá stuðningsmönnum KA var einnig mjög góður og var mesti áhorfendafjöldi á leik hjá KA á heimavelli í fjölda mörg ár og Schiötararnir í essinu sínu.

Nivea KA-maður leiksins: Torfi Tímoteus Gunnarsson (Var algjörlega magnaður í vörninni í dag. Ótrúlega öruggur í öllum sínum aðgerðum.)

Næsti leikur KA er á föstudaginn þegar að KA mætir FH í Kaplakrika. Sá leikur hefst kl. 18:00 og vonumst við til að sem flestir KA menn sem hafa tök á að mæta í Hafnarfjörðinn mæti þangað og styðji við bakið á liðinu í leiknum. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is