Eitt mark dugði Valsmönnum (myndir)

Fótbolti
Eitt mark dugði Valsmönnum (myndir)
Krefjandi leikur í gær (mynd: Egill Bjarni)

KA hóf leik í Lengjubikarnum í gær er liðið tók á móti Íslandsmeisturum Vals í Boganum. Í sama riðli leika einnig Afturelding, HK, Grindavík og Víkingur Ólafsvík og fara efstu tvö liðin áfram í 8-liða úrslit keppninnar. Aðeins eru leiknir fimm leikir í riðlinum og ljóst að ekki má mikið fara úrskeiðis til að fara uppúr riðlinum.

Valur er með gríðarlega sterkt og vel mannað lið sem flestir reikna með að verji titil sinn á komandi sumri. Verkefni dagsins var því krefjandi en á sama tíma spennandi að sjá hvar okkar lið stendur á þessum tímapunkti í undirbúningsferlinu.

Egill Bjarni Friðjónsson og Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndarar voru á svæðinu og bjóða til myndaveislu frá leiknum. Þökkum þeim félögum kærlega fyrir framtakið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi þó varnir liðanna hafi verið í aðalhlutverki. Leikurinn var ekkert sérlega opinn og því markalaust er liðin gengu inn í hléinu. Eina mark leiksins kom svo snemma í síðari hálfleik er Birkir Már Sævarsson kom gestunum yfir á 50. mínútu.

Þrátt fyrir ágætis leik okkar liðs tókst strákunum ekki að svara fyrir sig og niðurstaðan því 0-1 tap. Vissulega svekkjandi að tapa leiknum en klárlega margt jákvætt sem að Arnar og strákarnir geta tekið úr leiknum. Næsti leikur er gegn Víkingi Ólafsvík næsta laugardag í Akraneshöllinni þar sem strákarnir stefna klárlega á þrjú stig.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is