Eiður ráðinn afreksþjálfari og Bane framlengir

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA framlengdi í dag samninga sína við þá Branislav Radakovic og Eið Ben Eiríksson.

Eiður Ben hefur nú verið ráðinn afreksþjálfari hjá KA auk þess sem hann mun sinna leikgreiningu fyrir meistaraflokk félagsins. Eiður gekk til liðs við KA í sumar er hann kom inn í þjálfarateymi meistaraflokks auk þess sem hann gerði 3. flokk karla að Bikarmeisturum.

Eiður er með UEFA A þjálfaragráðu og UEFA Youth Elite A ásamt því að vera í UEFA Pro námi sem er hæsta þjálfaragráða sem hægt er að fá. Þá kláraði hann einnig Sports Management frá Johan Cruyff Institute. Hann hefur komið frábærlega inn í félagið og erum við afar spennt fyrir komandi tímum með Eið sem afreksþjálfara félagsins.

Branislav eða Bane eins og hann er iðulega kallaður hefur verið markmannsþjálfari meistaraflokks KA frá árinu 2018 auk þess sem hann hefur aðstoðað markmenn yngriflokka félagsins. Mikil ánægja er með Bane en þessi 57 ára gamli Serbi hefur smellpassað inn í félagið og svo sannarlega lyft markmannsstarfi félagsins upp á hærra plan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is