Daníel Hafsteinsson framlengir út 2025!

Fótbolti
Daníel Hafsteinsson framlengir út 2025!
Frábærar fréttir!

Daníel Hafsteinsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn út sumarið 2025. Algjörlega frábærar fréttir enda Danni burðarás og lykilmaður í KA liðinu og skýr skilaboð um að við ætlum okkur áfram að vera í fremstu röð.

Danni er uppalinn hjá KA en hann er 24 ára gamall og heldur betur sannað sig sem einn af bestu leikmönnum Bestu deildarinnar. Danni braut sér leið inn í meistaraflokkslið KA sumarið 2017 er KA var nýliði í efstu deild og hefur verið í lykilhlutverki síðan en hann lék sinn 100. leik fyrir KA á dögunum.

Danni er nú kominn með 104 leiki fyrir KA í deild, bikar og Evrópu og gert í þeim 12 mörk, þar af tvö í Evrópu og er Daníel nú markahæsti leikmaður í Evrópukeppni fyrir KA. Framundan eru tveir leikir gegn liði Dundalk og fær Danni því tækifæri til að bæta enn fleiri Evrópumörkum. Þá er gaman að segja frá því að faðir hans, Hafsteinn Jakobsson, gerði fyrsta Evrópumark KA sumarið 1990 er KA vann frækinn 1-0 sigur á liði CSKA Sofia á Akureyrarvelli.

Danni gekk í raðir sænska liðsins Helsingborg eftir sumarið 2019 en sneri aftur í raðir KA fyrir sumarið 2021. Þá hefur hann leikið einn A-landsleik fyrir Íslands hönd auk 19 landsleikja fyrir yngrilandslið Íslands.

Það eru gríðarlega góðar fréttir að við höldum Danna áfram innan okkar raða og verður áfram spennandi að fylgjast með þessum magnaða kappa í gula og bláa búningnum. Framundan eru afar spennandi tímar en KA mætir Dundalk í næstu umferð forkeppni Sambandsdeildar UEFA og þá er sjálfur bikarúrslitaleikurinn þann 26. ágúst auk baráttunnar í Bestu deildinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is