Brynjar Ingi gengur til liðs við Lecce

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA hefur gengið frá samkomulagi við ítalska liðið U.S. Lecce um félagaskipti Brynjars Inga Bjarnasonar með hefðbundum fyrirvörum, til að mynda um læknisskoðun.

Fyrir KA er þetta afskaplega ánægjuleg tíðindi enda sýnir þetta hvernig draumur ungra leikmanna nær að rætast þegar saman fer metnaður og góð ástundun leikmanns, sem og framúrskarandi og fagleg umgjörð uppeldisfélagsins. Það er mikill missir í Brynjari sem leikmanni og félaga, en hann hefur svo sannarlega vaxið sem leikmaður og er nú einn af okkar lykilleikmönnum. Þetta var svo rammað inn með leikjum hans fyrir A-landslið Íslands á dögunum þegar hann meðal annars skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.

En þrátt fyrir missinn, þá samgleðjumst við Brynjari Inga af heilum hug. Brynjar Ingi er frábær vitnisburður um frábært starf hjá KA og er frábær fyrirmynd fyrir alla krakka sem leggja stund á íþróttir hjá okkur í KA. Við leggjum hart að okkur, sumir til að ná langt í sinni íþrótt, aðrir til að hafa gaman af og vera með í góðum félagsskap. Það er gaman í KA og við gleðjumst með þeim sem ná markmiðum sínum.

„Félagaskipti Brynjars Inga til U.S Lecce er enn ein viðkenning á því góða starfi sem KA hefur unnið síðustu ár við að efla afreksstarf okkar“ segir Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA.

„Við erum ótrúlega stolt af árangri Brynjars Inga Hann hann hefur lagt mikið á sig undanfarin ár í að ná þessum áfanga og fengið frábæran stuðning á sinni vegferð frá þjálfurum KA og liðsfélögum. Vegferðin að þessum draumi Brynjars hefur ekki alltaf verið greið, enn með miklum metnaði og stuðningi félagsins er hann að fara lifa drauminn sem er að verða atvinnumaður í fótbolta.

Það er heiður að vera hluti af KA og sjá allan þann uppgang sem er í félaginu, við settum okkur markmið fyrir nokkrum árum og sú vegferð er á réttri leið. Í meistara- og yngri flokkum KA eru fleiri aðilar sem hafa getur til að ná þessum sama árangri og munu þau öll eflast við að sjá Brynjar Inga ná sínum markmiðum“ segir Hjörvar að lokum.

Við óskum Brynjari Inga velfarnaðar í framtíðinni og vonum að honum farnist sem best.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is