Bríet áfram í undankeppni EM með U19

Fótbolti

U19 ára landslið Íslands í knattspyrnu kvenna tryggði sér á dögunum sæti í næstu umferð undankeppni EM 2025. Þór/KA átti einn fulltrúa í hópnum en það var hún Bríet Jóhannsdóttir sem lék sinn fyrsta landsleik í ferðinni.

Íslenska liðið mætti Belgíu, Spáni og Norður-Írlandi en leikið var á Spáni. Í fyrsta leik gerðu stelpurnar 1-1 jafntefli við Belgíu en Belgar jöfnuðu metin með síðustu snertingu leiksins. Bríet kom inná í leiknum og lék þar eins og áður segir sinn fyrsta landsleik.

Í kjölfarið fylgdi 0-3 tap gegn sterku liði heimastúlkna á Spáni sem unnu alla þrjá leiki sína á mótinu. Í lokaleiknum mætti íslenska liðið því norður-írska og var um hreinan úrslitaleik að ræða um sæti í næstu umferð forkeppninnar. Norður-Írland komst yfir á 84. mínútu en íslensku stelpurnar jöfnuðu metin á 87. mínútu og dugði 1-1 jafntefli til að tryggja sæti í næstu umferð.

Við óskum Bríeti innilega til hamingju með fyrsta landsleikinn sem og sæti í næstu umferð forkeppninnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is