Bjarni Aðalsteins framlengir út 2026

Fótbolti
Bjarni Aðalsteins framlengir út 2026
Bjarni er gulur og blár!

Bjarni Aðalsteinsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2026. Eru þetta ákaflega góðar fréttir enda hefur Bjarni verið algjör lykilmaður í liði KA undanfarin ár.

Bjarni sem er 25 ára gamall er uppalinn hjá KA og hefur farið mikinn með liðinu frá því hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sumarið 2019. Hann hefur nú leikið 123 leiki í deild, bikar og evrópu fyrir KA og gert í þeim 13 mörk. Þar áður lék hann á láni hjá Magna og Dalvík/Reyni auk þess að leika með liði Vermont í Bandaríska háskólaboltanum.

Bjarni hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína með KA liðinu undanfarin ár en þrátt fyrir að vera varnarsinnaður miðjumaður gerði hann sex mörk á nýliðnu sumri og komu þrjú þeirra á leið liðsins að sigri í Mjólkurbikarnum. Ekki nóg með að vera magnaður innan vallar er Bjarni einnig mikill félagsmaður og frábær fyrirmynd.

Það eru stórkostlegar fréttir að Bjarni sé búinn að skrifa undir nýjan samning og lykilskref í undirbúningi fyrir komandi sumar. Það eru spennandi tímar framundan þar sem Bikarmeistarar KA taka aftur þátt í evrópukeppni en Bjarni gerði glæsilegt mark er KA sló út írska liðið Dundalk er KA fór alla leið í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar sumarið 2023.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is