Alex í níunda sæti á HM

Lyftingar

KA-maðurinn Alex Cambray Orrason stóð í ströngu í vikunni á HM í kraftlyftingum með búnaði sem fram fer í Reykjanesbæ þessa dagana.

Alex Cambray Orrason keppir í -93 kg flokki og var að keppa á sínu þriðja heimsmeistaramóti. Hann hefur auk þess keppt á fimm Evrópumeistaramótum og orðið Vestur-Evrópumeistari árin 2019 og 2022.

Hann lyfti samtals 837,5 kg og var efstur í B-hópnum. Fyrir mótið er keppendum raðað í hópa sem lyfta á sama tíma. Það er gert eftir stigum á mótum síðustu tvö ár og er gert fyrir framgang mótsins til þess að ekki líði of langur tími milli lyftna.

Alex endaði sjötti í hnébeygju, ellefti í bekkpressu og tíundi í réttstöðulyftu. Samanlagt varð hann níundi en sigurvegari í þyngdarflokknum varð Úkraínumaðurinn Volodymyr Rysiyev.

Fyrst á dagskrá var hnébeygja og þar bætti Alex sinn besta árangur á móti um fimm kíló þegar hann lyfti 345 kílóum. Hann bætti sig einnig um fimm kíló í bekkpressu, hans besta lyfta var upp á 212,5 kílógrömm. Í réttstöðulyftunni reyndi hann við 290 kíló í lokalyftunni en fékk ógilt og 280 var því hans besta lyfta, 12 og hálfu kílói frá hans bestu lyftu.

Samanlagt lyfti hann 837,5 kílóum og mest af öllum í B-hópnum. Hann lyfti mest allra í hópnum í hnébeygju og var annar í réttstöðulyftu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is