Anna Rakel og Dagur Gautason fengu Böggubikarinn

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak | Tennis og badminton
Anna Rakel og Dagur Gautason fengu Böggubikarinn
Mynd: Þórir Tryggva

Í tilefni af afmæli KA var í dag afhentur Böggubikarinn í þriðja sinn. Anna Rakel Pétursdóttir, knattspyrnudeild og Dagur Gautason, handknattleiksdeild, hlutu verðlaunin. 

Anna Rakel Pétursdóttir

Anna Rakel er fædd 1998 og varð því 18 ára á árinu. Hún er fyrirmyndar-KA maður innan vallar sem utan, afburða hæfileikarík í knattspyrnu , jákvæð, drífandi  og fyrirmynd stúlkna sem drengja í KA. Anna Rakel hefur æft af kappi upp alla flokka KA, jafnt með stúlkum sem drengjum auk þess að þjálfa hjá félaginu. Anna Rakel var burðarás í liði Þór/KA/Hamrarnir í 2. flokki sem varð Íslandsmeistari á árinu auk þess að spila lykilhlutverk með liði Þór/KA í Pepsí deildinni í sumar. Anna Rakel á að baki 50 leiki með meistaraflokki í deild og bikar og hefur skorað 7 mörk í þeim. Hún hefur jafnframt leikið 14 leiki með U-17 landsliðinu og skorað í þeim 2 mörk. Hún hefur spilað 5 leiki með U-19 landsliðinu og skorað í þeim 3 mörk. Anna Rakel var fyrir skömmu valin til æfinga með A-landsliði Íslendinga, sem undirbýr sig af kappi fyrir úrslitakeppni EM 2017.

Dagur Gautason

Dagur Gautason er 16 ára leikmaður 3. flokks KA og 2. flokks Akureyri og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands síðustu ár. Hann er mjög metnaðarfullur leikmaður sem leggur sig alltaf 100% fram. Hann er ótrúlega flott fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og er alltaf mættur fyrstur á æfingar og fer helst síðastur heim. Hann leggur mjög mikið á sig og er alltaf tilbúinn að æfa aukalega.

Þjálfarar hans í fyrra þeir Andri Snær Stefánsson og Jón Heiðar Sigurðsson lýsa honum sem fullkomnum leikmanni til að þjálfa. Hann hlustar á allar leiðsagnir og er alltaf á fullu á öllum æfingum.

Dagur er gríðarlega mikill KA-maður og hikar ekki við að vinna sjálfboðavinnu fyrir klúbbinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is