Skarphéðinn og Iðunn hlutu Böggubikarinn

Almennt | Fótbolti | Handbolti
Skarphéðinn og Iðunn hlutu Böggubikarinn
Frábærir fulltrúar félagsins

Á 94 ára afmælisfögnuði KA var Böggubikarinn afhentur í áttunda sinn auk þess sem að lið og þjálfari ársins voru valin í annað skiptið. Það er mikil gróska í starfi allra deilda KA um þessar mundir og voru sjö iðkendur tilnefndir til Böggubikarsins, 7 þjálfarar til þjálfara ársins og 5 lið tilnefnd til liðs ársins.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Iðunn Rán Gunnarsdóttir hlaut Böggubikar stúlkna en hún er öflugur og vel spilandi miðvörður og miðjumaður. Hún vann sig inn í æfingahóp meistaraflokks Þórs/KA eftir að hafa bætt sig jafnt og þétt síðustu ár og spilaði hún sína fyrstu leiki í efstu deild í sumar. Iðunn Rán var valinn í U16 og U17 ára lið Íslands þar sem hún spilaði fjóra leiki á árinu. Með U17 komst hún og liðsfélagar hennar áfram í milliriðil EM. Í 3. flokk var hún lykilmaður í liði sem vann bæði Stefnumót KA og ReyCup ásamt því að vera í toppbaráttunni á Íslandsmótinu. Það verður áhugarvert að fylgjast með henni á komandi sumri þar sem hún hefur burði til að sér inn enn stærra hlutverk í meistaraflokknum.

Skarphéðinn Ívar Einarsson hlaut Böggubikar drengja en þessi öflugi handknattleiksmaður hefur þrátt fyrir ungan aldur stigið sín fyrstu skref í meistaraflokksliði KA. Frábært hugarfar hans hefur gert það að verkum að á undanförnum árum hefur hann tekið gríðarlegum framförum og til að mynda orðinn lykilmaður í U-17 ára landsliði Íslands þó svo að þar spili hann með leikmönnum sem eru árinu eldri. Það verður gaman að fylgjast með Skarpa á næstu árum ef hann heldur áfram á sömu braut því hann hefur sýnt að honum eru allir vegir færir.

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs var valinn þjálfari ársins en hann náði stórkostlegum árangri með liðið á sínu fyrsta ári. Hann var valinn besti þjálfari Olísdeildar kvenna 2021 þar sem liðið endaði á að vinna alla titlana sem í boði voru er liðið varð Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna. Fyrir veturinn í vetur hafði KA/Þór aldrei hampað stórum titli og afrekið magnaða því enn stærra.

Andri kemur einnig að þjálfun 8. flokks KA og KA/Þór en Andri Snær er uppalinn KA-maður og leggur allt í sölurnar þegar kemur að þjálfun og gerði einnig sem leikmaður. Þá fór Andri einnig tvær frægðarfarir með KA/Þór í Evrópubikarkeppni kvenna. Frábær sigur vannst í Kósóvó gegn landsmeisturunum þar en svo fylgdi naumt tap í 32-liða úrslitunum gegn bikarmeisturum Spánar, BM Elche.

Meistaraflokkslið KA/Þórs var loks valið lið ársins en stelpurnar áttu stórkostlegt ár þar sem þær voru handhafar allra fjögurra titla sem í boði eru á Íslandi fyrir tímabilið 2020-2021. Stelpurnar hófu tímabilið 2020 á því að verða meistarar meistaranna. Þær stóðu síðan uppi sem deildarmeistarar í lok apríl 2021 og Íslandsmeistarar mánuði síðar. Þær hófu síðan veturinn 2021-2022 á því að verða  bikarmeistarar í Coca-Cola bikarkeppni kvenna sem átti að fara fram í mars 2021 en var frestað til  haustsins 2021 vegna Covid.

Stelpurnar komust einnig í 32-liða úrslit í Evrópubikarkeppni kvenna þar sem þær lögðu Kósóvósku meistarana í 64-liða úrslitum. Þær lutu síðan lægra haldi fyrir spænsku bikarmeisturunum í BM Elche í 32-liða úrslitum með tveggja marka mun. Fimm leikmenn liðsins hafa verið valdar í A-landslið kvenna á árinu og sópuðu þær til sín verðlaunum á lokahófi HSÍ í sumar, bæði leikmenn og þjálfarar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is