Sætur sigur á Víkingi í markaleik

Almennt
Sætur sigur á Víkingi í markaleik
Mynd - Þórir Tryggva.

KA sigraði bikarmeistara Víkings í dag í Fossvoginum í 21.umferð Pepsi Max deildarinnar. KA leiddi 0-1 í hálfleik en síðari hálfleikur var mikil skemmtun og lauk leiknum með 2-3 sigri KA.

Víkingur R. 2 – 3 KA

0 – 1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’38) Stoðsending: Elfar Árni

0 – 2 Elfar Árni Aðalsteinsson (’53) Stoðsending: Ásgeir

1 – 2 Guðmundur Andri Tryggvason (’58)

1 – 3 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’65)

2 – 3 Kwame Quee (’90+1)

Lið KA:

Aron Dagur, Hrannar Björn, Torfi, Callum, Alexander Groven, Almarr, Iosu Villar, Andri Fannar, Ásgeir, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Kristijan Jajalo, Brynjar Ingi, Nökkvi Þeyr, David Cuerva, Steinþór Freyr, Sæþór Olgeirs og Bjarni Aðalsteins.

Skiptingar:

Nökkvi Þeyr inn – Ásgeir út (’73)

David Cuerva inn – Andri Fannar út (’73)

Sæþór Olgeirs inn – Elfar Árni út (’86)

Liðið í dag

KA sótti nýbakaða bikarmeistara Víkings heim í Fossvoginn í rigninguna í borginni í 21.umferð Pepsi Max deildarinnar í dag. KA gerði tvær breytingar á liðinu frá jafnteflinu gegn HK í síðustu umferð inn í liðið komu Aron Dagur og Torfi Tímoteus.

Mikið jafnræði var í leiknum í fyrri hálfleik og en heimamenn í Víking voru þó aðeins með undirtökin. Á 38. mínútu átti Elfar Árni sendingu út í teiginn á Hallgrím Mar sem lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum upp í markvínkilinn og kom KA yfir. Laglegt mark hjá KA og gaf markið liðinu aukið sjálfstraust. Staðan í hálfleik 0-1 KA í vil.

KA liðið hóf seinni hálfleikinn rólega og lá aðeins á okkar mönnum en það kom ekki að sök þar sem fyrsta sókn KA í síðari hálfleiknum var árangursrík. Þá átti Ásgeir fyrirgjöf fyrir markið sem gammurinn Elfar Árni Aðalsteinsson gerði vel í að klára af stuttu færi og koma KA í 2-0 forystu.

Heimamenn í Víking voru ekki lengi að minnka muninn því aðeins fimm mínútum seinna átti Kwame Quee fyrirgjöf fyrir mark KA og hafði Guðmundur Andri betur í baráttu við varnarmenn KA og kom boltanum í markið af stuttu færi.

Þegar 25 mínútur voru til leiksloka fékk KA aukaspyrnu lengst utan á velli eftir að brotið var á Hallgrími Mar líkt og oft áður í sumar. Hallgrímur var ekkert að tvínóna við hlutina og lét vaða á markið af um 30 metra færi og gerði Þórður markvörður Víkings sig sekan um hræðileg mistök en hann missti boltann framhjá sér og í markið KA komið 1-3 forystu.

Eftir markið datt KA liðið aðeins aftar á völlinn og sóttu Víkingar töluvert að marki KA og komust nokkrum sinnum nálægt því að minnka muninn en vörn KA hélt og varði Aron Dagur oft á tíðum meistaralega í marki KA.

Víkingum tókst hins vegar að minnka muninn þegar að ein mínúta var kominn fram yfir venjulegan leiktíma og kom það eftir sendingu frá Davíð Erni Atlasyni og var það Kwame Quee sem skoraði af stuttu færi. Tveimur mínútum seinna flautaði Ívar Orri til leiksloka og sigur KA staðreynd.

KA liðið gerði það sem þurfti í dag og uppskar flottan sigur en um var að ræða fyrsta tap Víkings á Víkingsvelli í sumar en liðið hefur verið feykilega öflugt á heimavelli sínum í sumar. Eftir sigurinn er KA allt í einu komið í 5.sæti deildarinnar en fyrir leikinn var liðið í því tíunda sem er í raun ótrúlegt.

KA-maður leiksins: Aron Dagur Jóhannsson (Varði frábærlega út allann leikinn og var öruggur í föstum leikatriðum og eignaði sér teiginn. Alvöru framistaða.)

Lokaleikur tímabilsins fer fram að laugardaginn næstkomandi þegar að við fáum Fylki í heimsókn á Greifavöllinn og viljum við hvetja alla KA menn til að loka sumrinu með okkar frábæra liði og halda uppteknum hætti með því að fjölmenna á völlinn en mætingin í sumar hefur verið framúrskarandi og tilvalið að enda tímabilið vel. Allir á völlinn og Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is