Mikill kraftur innan lyftingadeildar KA

Almennt
Mikill kraftur innan lyftingadeildar KA
Fimm útskrifaðir dómarar hjá lyftingadeild KA

Það var ansi stór helgi hjá lyftingadeild KA 25.-26. júní síðastliðinn en gríðarlegur kraftur er innan þessarar nýstofnuðu deildar félgsins. Á laugardeginum hélt deildin dómaranámskeið í KA-Heimilinu en námskeiðið veitti landsdómararéttindi í ólympískum lyftingum og útskrifuðust alls fimm dómarar.

Þetta eru þau Alex C. Orrason, Birkir Örn Jónsson, Jakob Ernfelt Jóhannesson, Reginn F. Unason og Sesselja Sigurðardóttir. Námskeiðið var haldið í samstarfi við Lyftingasamband Íslands og er þetta í fyrsta skiptið sem Íslendingur kennir slíkt námskeið hérlendis. Umsjón með námskeiðinu höfðu Lárus Páll Pálsson og Erna Héðinsdóttir, vill deildin þakka þeim, LSÍ og bakhjörlum deildarinnar innilega fyrir.

Á sunnudeginum þreytti deildin síðan frumraun sína í mótahaldi og hélt með pompi og prakt sumarmót í ólympískum lyftingum í samstarfi við Lyftingasamband Íslands. Mótið fór fram í húsnæði Norður við Njarðarnes. Níu keppendur voru skráðir til leiks, fimm í kvennaflokki og fjórir í karlaflokki.

Mótið var sinclair mót en þá fá keppendur stig sem reiknast út frá líkamsþyngd og samanlagðri þyngd lyftanna. Keppandi fær þrjár tilraunir til þess að lyfta hámarks þyngd í snörun annarsvegar og jafnhendingu hinsvegar.

Úrslit í kvennaflokki

1.sæti - Rakel Ragnheiður Jónsdóttir - Lyftingafélag Garðabæjar
2.sæti - Thelma Mist Oddsdóttir - Lyftingafélag Kópavogs
3.sæti - Sigurbjörg Óskarsdóttir - Lyftingafélag Vestmannaeyja

Úrslit í karlaflokki

1.sæti - Alex Daði Reynisson - Lyftingafélag Garðabæjar
2.sæti - Gerald Brimir Einarsson - Lyftingafélag Garðabæjar
3.sæti - Þórbergur Ernir Hlynsson - Lyftingafélag Reykjavíkur

Nokkur Íslandsmet féllu á mótinu en Rakel Ragnheiður Jónsdóttir bætti eigið Íslandsmet um eitt kíló þegar hún snaraði 72 kg í loka lyftu sinni í snörun. Er lyftan því nýtt Íslandsmet U23 ára í -59kg flokki.

Alex Daði Reynisson sló Íslandsmet í snörun þegar hann lyfti 130kg í sinni síðustu lyftu. Þetta var Íslandsmet í opnum –96kg flokki.

Sigurður Freyr Árnason frá lyftingafélagi Mosfellsbæjar átti einstaklega gott mót en hann sló Íslandsmet í snörun, jafnhendingu og samanlagðri þyngd í -102kg flokki. Sigurður er 46 ára og því gjaldgengur í öldungaflokk 45 ára og eldri, öldungaflokki 40 ára og eldri ásamt öldungaflokk 35 ára og eldri. Því sló Sigurður Íslandsmetin í þremur aldursflokkum. Gaman er að segja frá því að þetta er í fyrsta skiptið sem Sigurður keppir í ólympískum lyftingum.

Að lokum vill stjórn lyftingadeildarinnar þakka keppendum, sjálfboðaliðum, áhorfendum og bakhjörlum deildarinnar fyrir stuðninginn um helgina. Án ykkar er ekki hægt að halda svona viðburði og erum við gríðarlega þakklát.

Við óskum lyftingadeildinni til hamingju með bæði mótið sem og námskeiðið og er afar ánægjulegt að fylgjast með kraftinum sem þar ríkir og ekki spurning að það verður gaman að fylgjast með starfi deildarinnar á næstunni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is