Magnaður febrúar mánuður hjá KA

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Febrúar mánuður er liðinn en óhætt er að segja að hann hafi reynst KA ansi gjöfull. Það er leikið ansi þétt þessa dagana eftir að íþróttirnar fóru aftur af stað eftir Covid pásu og léku meistaraflokkslið KA í fótbolta, handbolta og blaki alls 27 leiki í febrúar.

Alls unnust 22 af þessum 27 leikjum sem er magnað afrek og aðeins töpuðust þrír leikir auk þess sem tveimur lauk með jafntefli.

Ekki nóg með að það hafi gengið vel innan vallar þá stóð KA-TV í ströngu og sýndi rúmlega 112 klukkustundir beint frá starfi meistaraflokka og yngriflokka félagsins.

Karlalið KA í handbolta lék flesta leiki eða 8 talsins. Strákarnir unnu fimm þeirra, gerðu tvö jafntefli en urðu loks að sætta sig við tap í gær. Fyrir vikið er liðið komið í efri hluta Olísdeildarinnar.

Karlalið KA í blaki lék fimm leiki og vann þá alla. Liðið hefur reyndar gert enn betur og unnið alla leiki sína eftir tap í fyrsta leik vetrarins.

Kvennalið KA/Þórs í handbolta lék þrjá leiki í mánuðinum og vann þá alla og er á toppi Olísdeildarinnar ásamt Fram þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir.

Kvennalið KA í blaki lék fimm leiki, vann fjóra þeirra og tapaði einungis einum. Stelpurnar eru í harðri toppbaráttu í Mizunodeildinni.

Karlalið KA í fótbolta lék fjóra leiki í mánuðinum og vann þrjá þeirra en strákarnir þurftu að sætta sig við tap gegn Íslandsmeisturum Vals. Strákarnir tryggðu sér sæti í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins og eru í góðri stöðu í Lengjubikarnum.

Kvennalið Þórs/KA í fótbolta vann báða leiki sína í febrúar mánuði og eru með fullt hús stiga í riðli sínum í Lengjubikarnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is