KA og Akureyrarbær undirrita þjónustusamning

Almennt
KA og Akureyrarbær undirrita þjónustusamning
Við undirritunina í gær (mynd: Akureyri.is)

Í gær gerði Akureyrarbær þjónustusamninga við KA sem og önnur íþróttafélög í bænum. Þjónustusamningarnir eru nýir af nálinni en markmiðið með þeim er að stuðla að betra og faglegra starfi innan íþróttafélaganna svo öll börn og ungmenni eigi þess kost að iðka heilbrigt og metnaðarfullt íþrótta- og tómstundarstarf óháð efnahag fjölskyldu.

Einnig felur samningurinn í sér að félögin bjóði upp á skipulagða íþróttaþjálfun á Akureyri og veiti öðrum nauðsynlega þjónustu sem eftir því óska. Auk hefðbundins þjónustuframlags deilda félaganna í skipulagðri íþróttaþjálfun, eru þau tilbúin til samstarfs við hlutaðeigandi aðila um rekstur íþróttaskóla fyrir börn í 1.-4. bekk grunnskóla.

Þá er kveðið á um að félögin skuli starfa í samræmi við stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga og uppfylla þau ákvæði í Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar, Forvarnastefnu Akureyrarbæjar og Aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum þar sem kveðið er á um skyldur félaga og félagasamtaka sem þiggja styrki frá Akureyrarbæ. Félögin skulu starfa eftir íþróttastefnu Akureyrarbæjar, íþróttanámskrá Íþróttabandalags Akureyrar og fyrirmyndarfélaga ÍSÍ.

Það er ljóst að þetta er ákaflega jákvætt skref og fagnar KA því að bærinn vilji lyfta íþróttastarfinu í bænum upp á hærra og faglegra plan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is