KA endar í 5.sæti Pepsi Max deildarinnar

Almennt
KA endar í 5.sæti Pepsi Max deildarinnar
Frábær árangur í sumar! (Mynd: Þórir Tryggva)

KA sigraði Fylki í dag í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar á Greifavellinum. KA leiddi 2-1 í hálfleik eftir að hafa lent undir á fyrstu mínútu leiksins. Elfar Árni fór hamförum í liði KA og skoraði þrennu í leiknum í dag.

KA 4 - 2 Fylkir

0 - 1 Ólafur Ingi Skúlason (’1)
1 - 1 Elfar Árni Aðalsteinsson (’19) Víti - Stoðsending: Ásgeir
2 - 1 Elfar Árni Aðalsteinsson (’28) Stoðsending: Hallgrímur Mar
3 - 1 Andri Fannar Stefánsson (’64) Stoðsending: Hallgrímur Mar
3 - 2 Geoffrey Castillion (’81)
4 - 2 Elfar Árni Aðalsteinsson (’90+2) Stoðsending: Nökkvi Þeyr

Áhorfendatölur:

780 áhorfendur

Lið KA:

Aron Dagur, Hrannar Björn, Brynjar Ingi, Torfi Tímoteus, Callum, Almarr Ormars (fyrirliði), Iosu Villar, Andri Fannar, Hallgrímur Mar, Ásgeir Sigurgeirs og Elfar Árni.

Bekkur:

Kristijan Jajalo, Haukur Heiðar, David Cuerva, Steinþór Freyr, Nökkvi Þeyr, Sæþór Olgeirs og Bjarni Aðalsteins.

Skiptingar:

Nökkvi Þeyr inn – Ásgeir Sigurgeirs út (’19)
Bjarni Aðalsteins inn – Andri Fannar út (’79)
Steinþór Freyr inn – Brynjar Ingi út (’85)

Liðið í dag

KA og Fylkir áttust við í lokaumferð Pepsi Max deildarinnar á Greifavellinum á Akureyri í dag. Fyrir leikinn sat KA í 5.sæti deildarinnar en Fylkir í 6.sæti. En liðin eru búinn að vera á svipuðum slóðum í deildinni í allt sumar og því búist við alvöru slag. KA gerði eina breytingu frá sigrinum gegn Víkingi í síðustu umferð en inn í liðið kom Brynjar Ingi í stað Alexander Groven sem var meiddur.

Gestirnir í Fylki hófu leikinn af krafti og skoruðu þeir á fyrstu mínútu leiksins. En þá áttu Andrés Már og Birkir Eyþórs laglegan samleik á hægri vængnum sem lauk með fyrirgjöf fyrir markið frá Birki þar sem fyrirliði gestanna Ólafur Ingi Skúlason rennitæklaði boltann í netið af stuttu færi og Fylkismenn komnir yfir. Blaut tuska í andlitið á KA liðinu strax á fyrstu mínútu.

KA liðið var hins vegar fljótt að komast aftur inn í leikinn. Ásgeir Sigurgeirsson elti bolta frá Iosu inn fyrir sem virtist ómögulegt að ná en komst einhvernvegin á undan markverði Fylkis boltann og var felldur innan teigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Á punktinn steig Elfar Árni og skoraði hann örugglega með hægri fæti í hægra horn og markvörður Fylkis fór í vitlaust horn. Staðan 1-1. Vítið kostaði hins vegar það að Ásgeir fór meiddur út af og í hans stað kom Nökkvi Þeyr.

KA liðið hélt áfram uppteknum hætti eftir jöfnunarmarkið og var miklu betra liðið á vellinum. Sótti stanslaust.

Eftir ríflega hálftíma leik komst KA svo yfir. Þá tók Hallgrímu Mar aukspyrnu vinstra megin við miðju og átti hann hnitmiðaða sendingu inn á teiginn á Elfar Árna sem skoraði annað mark sitt í leiknum og nú með skalla úr þvögunni í teignum og KA komið, verðskuldað í 2-1 forystu.

Eftir að KA komst yfir komst ákveðið jafnvægi á leikinn og gestirnir komu eilítið til baka og héldu boltanum meira en áður. Elfar Árni komst hins vegar nálægt því að fullkomna þrennuna á 38. mínútu eftir fyrirgjöf frá Andra Fannari en skalli Elfars rétt yfir markið. Staðan í hálfleik 2-1 KA í vil. Mjög sterkt hjá KA að koma til baka eftir brösuga byrjun.

Síðari hálfleikur hófst fjörlega og sóttu liðin hvað á annað. Nökkvi Þeyr var afar líflegur á hægri vængnum og átti nokkra góða spretti.

Á 64. mínútu vann Iosu boltann af Helga Val rétt fyrir utan teig og endaði boltinn hjá Hallgrími Mar sem gaf á Andra Fannar sem kom hlaupandi inn í teiginn og kláraði færið vel og kom KA í 3-1. 

Þegar rúmt korter var eftir af leiknum átti Andri Fannar frábæra sendingu á Almarr sem var kominn einn í gegn en skaut rétt framhjá markinu. Mátti litlu muna að KA bætti í forystuna. Gestirnir í Fylki voru mjög opnir til baka undir lokin og reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn. En KA liðið var einnig mjög líklegt í sínum hröðu upphlaupum upp völlinn.

Geoffrey Castillion átti þegar að nokkrar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma rosalegan sprett upp hægri vænginn sem lauk með því að hann stakk sér framhjá Callum og þrumaði boltanum framhjá Aroni Degi og staðan óvænt orðin 3-2.

KA liðið var hins vegar rólegt og yfirvegað og innsiglaði 4-2 sigur þegar að tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar Nökkvi Þeyr renndi boltanum á Elfar Árna sem skaut boltanum alveg út við stöng vinstra megin úr teignum og þrennan fullkomnuð hjá Elfari Árna og 4-2 sigur KA niðurstaðan.

Heilsteypt frammistaða frá KA liðinu í dag og gríðarlega sterkt að koma til baka eftir að fá mark í andlitið eftir einungis mínútu leik. KA liðið átti sigurinn fyllilega verðskuldaðan og spilaði flottan fótbolta í dag.

Úrslitin þýða að KA endar í 5. sæti deildarinnar með 31 stig sem er næst mesti stigafjöldi sem KA hefur náð í efstu deild frá upphafi og besti árangur KA í efstu deild frá árinu 2002 hvað varðar sæti í deildinni.

KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Magnaður leikur hjá Elfari Árna og þrennan verðskulduð. Var duglegur að koma sér í góðar stöður og kláraði færin sín vel. Frábært sumar hjá Elfari kórónað í dag.)

Þá er keppnistímabilinu lokið þetta sumarið og viljum við þakka öllum stuðningsmönnum KA fyrir þeirra frábæra stuðning við liðið í sumar. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is