Heilmikið um að vera um helgina

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Það er nóg um að vera um helgina eins og svo oft áður hjá okkur í KA um helgina og má með sanni segja að aðstaðan sem félagið býr yfir er nýtt til fulls!

Í dag, föstudag, leggur karlalið KA í handbolta land undir fót og sækir FH heim í Olísdeild karla en leikurinn hefst klukkan 19:30 í Kaplakrika og er í beinni á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki komast í Hafnarfjörðinn.

Blakdeild KA stendur svo fyrir stórskemmtilegu fyrirtækjamóti í blaki í KA-Heimilinu í kvöld og verður gaman að sjá taktana sem þar verða í boði. Að blakmótinu loknu mætast KA/Þór og HK 2 í 3. flokki kvenna í handboltanum en leikurinn hefst kl. 21:15.

Á morgun laugardag er risastórt Stefnumót KA í fótbolta þar sem strákar og stelpur í 6., 7. og 8. flokki leika listir sínar en mótið er það fyrsta hjá mörgum iðkendum okkar í 8. flokknum. Leikið er í Boganum.

Smelltu hér til að sjá helstu upplýsingar um Stefnumót helgarinnar

KA/Þór leikur sinn fyrsta heimaleik í rúman mánuð er Íslandsmeistararnir taka á móti HK í KA-Heimilinu klukkan 15:00 á laugardaginn. Stelpurnar hafa byrjað veturinn frábærlega og tryggðu sér nýverið sæti í næstu umferð Evrópukeppninnar og ljóst að þær ætla sér tvö mikilvæg stig á heimavelli. 3. flokkur KA/Þórs leikur svo í kjölfarið klukkan 17:00 en þá taka stelpurnar á móti HK.

4. flokkur karla í handboltanum leikur tvo heimaleiki á laugardeginum þegar FH mætir norður. Eldra árið leikur sinn leik klukkan 11:15 og í kjölfarið klukkan 12:30 tekur yngra árið á móti yngra árs liði FH.

Á sunnudeginum fer svo fram Sprettsmót í handboltanum í KA-Heimilinu þar sem strákar og stelpur úr KA, KA/Þór og Þór fædd árin 2012 og 2013 leika listir sínar. Alls keppa 24 lið á mótinu, þar af 12 frá KA og 7 frá KA/Þór.

Smelltu hér til að skoða leikjaplan Sprettsmótsins

Þá eru einnig ófá lið okkar í yngriflokkunum að keppa fyrir sunnan um helgina.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is