Framsaga formanns KA um uppbyggingarmál KA

Almennt

Ingvar Már Gíslason formaður KA var með flottan og áhugaverðan pistil á föstudagsframsögu KA í dag. Fjölmargir gestir lögðu leið sína í KA-Heimilið til að hlýða á hvað Ingvar hafði að segja um uppbyggingarmál KA og gæddu sér á gómsætum mat frá Vídalín veitingum.

Góðan dag og takk fyrir að gefa ykkur tíma í föstudagsframsöguna. Eðli málsins samkvæmt er ég að fara ræða stöðu félagsins og þá sérstaklega uppbyggingarmál en eins og kunnugt er kom nýlega út skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Fyrir mína parta kemur skýrslan mjög vel út fyrir KA þar sem þverpólitískur vinnuhópur er samstíga um að setja fram þá forgangsröð sem í skýrslunni birtist. Það er mikilvægt að hafa í huga að vinnuhópurinn hafði fjögur atriði til grundvallar í vinnu sinni. Í fyrsta lagi mat á framkvæmdir með tilliti til iðkendafjölda. Í öðru lagi voru metin áhrif uppbyggingar á almenning, skólastarf og lýðheilsu, í þriðja lagi áhrif af samnýtingu með öðrum íþróttafélögum og að lokum var lagt mat á áhrif íþróttafélags og starfsemi þess á ferðaþjónustu.

Niðurstaðan er sú að þau verkefni sem KA hefur kynnt og skilaði inn sem sinni framtíðarsýn til vinnuhópsins eru númer 3, 4 og 11 á verkefnalistanum. Kostnaðarmat þessara verkefna samkvæmt skýrslunni er 2,5 milljarður króna sem er þó reyndar nokkru hærri tala en við höfum sjálf reiknað með.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið síðustu daga og vikur vil ég taka það skýrt fram að ég hef enga trú á öðru og treysti því að þau verkefni sem við höfum sett á oddinn verði að veruleika og það standi ekki til með neinum hætti að breyta þeirri forgangsröð sem sett var fram.

Ég hef vissulega viðrað töluverðar áhyggjur af stöðunni og gerði það meðal annars að umtalsefni á afmæli okkar KA manna. Þegar gustar um mann er einmitt ágætt að líta í eigin barm og skoða hjá sjálfum sér hvort að ekki megi nálgast hlutina með faglegri og betri hætti. Ég get vel viðurkennt að hafa notað stór orð og verið ósanngjarn í garð þeirra sem vinna um margt gott starf í okkar þágu. Því miður hefur það orðið til þess að umræðan hefur afvegaleiðst sem mér þykir miður og bið hlutaðeigandi afsökunar á.

Það er mikilvægt að við KA-menn séum fagleg í okkar málflutningi, hann byggi á rökum og metnaði til að gera betur. Tilfinningarök og upphrópanir verða menn að setja til hliðar.

Við skulum hafa í huga að nú í fyrsta skipti er verið að setja fram stefnu um uppbyggingu í íþróttamannvirkjum sem að mínum dómi er metnaðarfull og gefur okkur vísbendingu um það sem koma skal. Á Akureyri eru 22 íþróttafélög með 32 íþróttagreinar, í kringum þessi félög starfar stór hópur frábærra sjálfboðaliða sem hefur mikinn metnað fyrir hönd sinna félaga. Að minni eigin naflaskoðun lokinni verð ég að viðurkenna að það þarf líka þor til að setja fram þá forgangsröðun sem nú hefur verið gert í fyrsta sinn. Forgangsröðun sem íþróttahreyfingin, þar á meðal ég, treysti sér ekki til að setja fram.

Það sem er mikilvægast er að það sé traust á milli aðila og samtalið geti átt sér stað með faglegum hætti. Til að öðlast traustið er mikilvægast að segja hvað maður ætlar að gera hvenær maður ætlar að gera það og standa svo við það. 

Íþróttafélag eins og KA er ótrúlega merkilegt fyrirbæri sem teygir anga sína víða í samfélaginu okkar. Við gegnum uppeldishlutverki, sinnum lýðheilsu, erum stór vinnustaður, löðum til okkar ferðamenn og svo mætti lengi telja.

Einhverjir kunna að velta fyrir sér hvernig félagið ætli sér að taka næstu skref áfram í uppbyggingarmálum. Ég get sagt fyrir mína parta að við munum halda áfram að tala fyrir uppbyggingu með rökum og faglegum hætti. Við erum með framtíðarsýn en verðum á sama tíma að vera tilbúin til að taka skynsamlega umræðu um hvernig best er að nýta þá fjármuni sem eru í boði til uppbyggingar þannig að mannvirkin nýtist íþróttafólkinu okkar sem best.

Þegar horft er til íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA og skýrslu um uppbyggingu íþróttamannvirkja þarf enginn að velkjast í vafa um að KA tikkar í öll boxin. Hér er iðkendafjöldinn mestur og hefur aukist gríðarlega með uppbyggingu Naustahverfis og Hagahverfis, mannvirkin nýtast okkur þegar horft er til almennings, lýðheilsu og skólastarfs. Þessi tvö atriði eru líklega þau veigamestu í rökunum fyrir því að byggja upp á KA svæðinu.

Það er þröngt um okkur og við upplifum að við getum ekki stundað æfingar og keppni með fullnægjandi hætti auk þess sem rekstrarlegar forsendur segja manni að það hljóti að vera hagkvæmara að reka íþróttamannvirki á einum stað í stað þess að reka mörg vítt og breitt um bæinn líkt og við gerum í dag. Lýðheilsu og almenna heilbrigði er erfitt að meta til fjár, það er klárt mál í mínum huga að íþróttafélag getur tekið að sér fleiri verkefni tengd heilsueflandi samfélagi. Ég hef alltaf séð fyrir mér að við höfum hlutverki að gegna í samfelldum vinnudegi barna og ungmenna og að við getum haft hlutverki að gegna í íþróttaþátttöku eldri borgara.

Áhrif KA á ferðaþjónustu er viðurkennd og þarf ekkert að ræða, betri aðstaða gefur okkur og bæjarfélaginu tækifæri til enn frekari sóknar. Samnýting með öðrum íþróttafélögum er margþætt en engu að síður þarf íþróttahreyfingin nauðsynlega að eiga samtal um hvernig íþróttagreinum er best fyrir komið. Við sem stærsta íþróttafélag bæjarins gegnum lykilhlutverki í þeim efnum.

Íþróttalífið er afar fjölbreytt á Akureyri og klárt mál að rekstur þeirra getur verið með hagkvæmari hætti. Sameining íþróttafélaga snýst ekki í mínum huga um að stærri íþróttafélögin gleypi þau minni, hún snýst fyrst og síðast um að farið sé vel með fjármuni, samlegðaráhrif í rekstri séu nýtt og þekkingu sé miðlað á milli á íþróttafélaga. Sameining íþróttafélaga er til þess fallin að sjálfboðaliðar og iðkendur geti einbeitt sér að því að eflast í sinni íþrótt með yfirbyggingu sem að styður við þátttöku þeirra.

Gott fólk, ég hef bullandi trú á að það fari að sjá til sólar í þessu verkefni okkar, íþróttahreyfingin kallaði eftir langtímastefnumótun í uppbyggingu íþróttamannvirkja og við bindum vonir við að hún verði í takt við það besta sem gerist hérlendis líkt og segir í íþróttastefnu okkar.

Ingvar Már Gíslason, formaður KA


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is