Ávarp formanns KA á 92 ára afmælinu

Almennt
Ávarp formanns KA á 92 ára afmælinu
Ingvar Gíslason, formaður KA (mynd: Þórir Tryggva)

Ingvar Már Gíslason formaður KA flutti áhugavert og flott ávarp í gær á 92 ára afmælisfagnaði félagsins. Þar fór hann yfir viðburðarríkt ár sem nú er að baki auk þess sem hann talaði opinskátt um óánægju félagsins með bæjaryfirvöld er varðar uppbyggingu íþróttasvæðis KA.

Kæru afmælisgestir gleðilegt ár og verið velkomin til 92 ára afmælisfagnaðar okkar KA manna. Ég vil í upphafi minnast þeirra KA félaga sem féllu frá á liðnu ári. Viðar Garðarsson andaðist 4. september síðastliðinn og þann 15. október lést heiðursfélagi KA Ísak Guðmann. Blessuð sé minning góðra KA félaga.

Kæru félagar, íþróttaárið 2019 var mjög gjöfult fyrir okkur KA menn, við héldum áfram að skrifa kafla í sögu okkar. Það er gaman að vera KA maður og ég veit að ég tala ekki bara fyrir sjálfan mig þegar ég segi að það er ótrúlega dýrmætt fyrir sálina og hjartað í manni þegar KA gengur vel. Það verður allt einhvernvegin miklu betra og vellíðunartilfinning flæðir um mann.

Sem fyrr eru öll keppnislið okkar í meistaraflokkum að etja kappi í efstu deildum Íslandsmóta og sem fyrr halda okkar frábæru íþróttamenn sem keppa undir merkjum félagsins sóma þess á lofti hvar sem þeir koma. Starfið hjá KA hefur haldið áfram að vaxa og blómstra og viðurkenningin fyrir vel unnin störf kemur meðal annars fram í því að 30 ungir KA menn tóku þátt i landsliðsverkefnum á árinu 2019.

Blakliðin okkar áttu algjörlega frábært ár og voru hreinlega titlaóð. Þau skrifuðu ekki bara kafla í íþróttasögu KA heldur landsins alls þegar bæði kvenna og karlalið okkar urðu Íslands-, bikar- og deildarmeistarar, það hefur aldrei gerst áður að sama lið sé með alla þessa titla í bæði kvenna og karlaflokki. Þá bættu bæði lið um betur í haust þegar þau urðu meistarar meistaranna. Kvennalið okkar hefur haldið áfram á sigurbraut sinni þar sem þær eru efstar í deildinni á þessu keppnistímabili. Þá var Filip Szewczyk kosinn  íþróttamaður KA árið 2018 og varð annar í kjöri til Íþróttakarls Akureyrar.

Handknattleiksmenn hafa á liðnu ári yljað okkur með frábærri skemmtun og oftar en ekki hefur verið ákfalega kátt í KA-höllinni. Bæði Meistaraflokkur karla og kvenna spila í Olís deildinni og voru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni á síðasta ári. Þá sigraði ungmennalið KA 2. deildina og leikur í 1. deild á þessu keppnistímabili. Martha Hermannsdóttir varð markadrottning á síðasta tímabili og varð þriðja í kjöri til Íþróttakonu Akureyrar árið 2018. Mikil aukning hefur orðið á iðkendafjölda í yngri flokkum og mikill metnaður þeirra er starfa að handboltanum að gera enn betur.

Júdómenn hjá KA hafa á árinu unnið til fjölda verðlauna bæði hér heima og erlendis. Þrír einstaklingar urðu Íslandsmeistarar og þá varð Alexander Heiðarsson þriðji í kjöri til íþróttamanns Akureyrar. Í mars hélt júdódeild KA vormót Júdósambands Íslands í unglingaflokki þar sem 100 keppendur frá fjölmörgum íþróttafélögum mættu til leiks. Á árinu flutti Júdódeildin á ný í KA-Heimilið og fara allar æfingar deildarinnar nú fram hér í húsinu.

Fótboltinn er sem fyrr æðisgengið áhugamál. Meistaraflokkur karla náði sínum besta árangri í 17 ár  þegar liðið endaði í 5. sæti Pepsi-Max deildar og kvennalið okkar Þór/KA náði góðum árangri er liðið lauk keppni í 4. sæti í Pepsi-Max deildar kvenna og er það tólfta árið í röð sem liðið endar í efstu fjórum sætunum. Starfið í knattspyrnudeildinni er mjög öflugt og er iðkendafjöldi í hæstu hæðum. Iðkendur á okkar vegum hafa tekið þátt í fjölmörgum mótum um allt land sem og erlendis og oftar en ekki verið í baráttu meðal þeirra fremstu á landinu.

Starfið í Spaðadeild heldur áfram að eflast. Keppendur á vegum KA tóku þátt í fjölmörgum mótum, þar ber hæst að KA átti keppendur á Meistaramóti Íslands í fyrsta skipti og að keppandi frá KA hlaut gullverðlaun í unglingaflokki á Norðurlandsmóti, þau fyrstu í sögu deildarinnar.

Keppendur á vegum KA voru sannarlega áberandi á liðnu ári, ótalinn er fjöldinn allur af okkar yngri iðkendum sem tóku þátt í fjölmörgum mótum á árinu og unnu marga glæsta sigra. Þar má nefna að 2.flokkur kvenna í knattspyrnu varð Íslandsmeistari, 6.flokkur kvenna sigraði Síma og Landsbankamótið og 5.flokkur karla stóð uppi sem sigurvegari á N1 mótinu en KA hafði ekki unnið mótið í 28 ár. Þá voru á vegum KA fjölmörg mót sem laða að sér þúsundir gesta til Akureyrar.

Það er svo sannarlega skemmtilegt að verða vitni að því öfluga starfi sem félagsmenn í KA standa fyrir. Með fórnfýsi og elju standa sjálfboðaliðar okkar vaktina nánast uppá hvern dag ársins að vinna félaginu okkar til heilla. Það er engin nýlunda að íþróttamenn leggi mikið á sig til að leggja stund á íþróttir sem þeir elska.

Í júní 1928 fóru KA menn í fyrstu umtalsverðu keppnisferð sína, er haldið var að Breiðamýri í Reykjadal þar sem skyldi keppa í knattspyrnu. Ferðamátinn var ólíkur því sem við þekkjum í dag. Farið var af stað með vörubíl klukkan átta á Laugardagskvöldi yfir í Vaðlaheiði að Veigastöðum. Þaðan var gengið yfir heiðina yfir í Fnjóskadal og um Ljósavatnsskarð.  Komið var í Sigríðarstaði um miðnætti og þar var gist í heyhlöðu. Morguninn eftir var gengið áfram, vaðið yfir ár og engi og yfir Fljótsheiðina.

Á áfangastað voru spilaðir tveir leikir síðari hluta sunnudags sem báðir unnust. Að þeim loknum var ekki eftir neinu að bíða, haldið var heim á leið, hálfa átta á sunnudagskveldi, fyrst með vörubíl að Fosshól og þaðan gengið til Akureyrar um kvöldið og nóttina. Allir mættu síðan til vinnu á mánudagsmorgun. Bæjarstjórn Akureyrar leit hið nýstofnaða knattspyrnufélag velþóknunaraugum enda hafði það hleypt nýjum þrótti í íþróttalíf Akureyringa. Að áliðnu árinu 1928 fékk félagið styrk frá bæjarstjórn um 400 krónur.

Nú 92 árum síðar njótum við KA menn þess að stofnendur okkar ástkæra félags voru tilbúnir að leggja mikið á sig til að rækta líkama og sál. Það efast ekki nokkur maður um mikilvægi íþrótta í dag hvort sem horft er til forvarna eða félagslegra gilda. Við erum sem fyrr virkur þátttakandi í þroska ungra manna og kvenna og ein af stoðum samfélagsins sem við búum í.

Kæru KA menn, ykkar framlag til félagsins er ómetanlegt og verður seint talið til fjár. Á meðan við stöndum vaktina fyrir börnin okkar og iðkendur okkar leggja líf og sál í æfingar stöndum við sem erum í forsvari fyrir félagið í baráttu sem virðist ætla að verða eilíf. Við höfum nú um langa hríð reynt af fremsta megni að eiga samtal við bæjaryfirvöld um uppbyggingu á félagssvæði okkar.

Aðstaða okkar hér er barn síns tíma og hefur á engan hátt þróast með félaginu síðustu ár. Þetta er sorgleg staðreynd sem blasir við okkur og því miður er það svo að ég hefi orðið miklar áhyggjur af því áhugaleysi sem virðist ríkja meðal bæjaryfirvalda um uppbyggingu á KA svæðinu. Sú þögn sem ríkir um hvernig standa skuli að uppbyggingu á þeirri eðlilegu íþróttaaðstöðu sem við teljum okkur þurfa er orðin ærandi.

Þeir sem til þekkja vita vel að nýlega kom út skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þar er KA sannarlega framarlega á blaði og skýrslan vakti hjá okkur neista um að nú gæti samtalið loksins átt sér stað um hvernig standa skuli að myndarlegri uppbyggingu á svæðinu og leiðrétta um leið hvernig hallað hefur á KA í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri síðastliðin 20 ár. Nú tveimur mánuðum eftir að skýrslan var kynnt fyrir íþróttahreyfingunni hefur enginn stjórnmálamaður séð ástæðu til að tjá sig opinberlega um innihald hennar né hvað þá haft samband við félagið til að ræða hvernig standa megi að málum, já þögnin er ærandi.

Íþróttabærinn Akureyri má í mínum huga muna fíful sinn fegurri og ég óttast mjög að Akureyri sé að tapa samkeppnishæfni sinni. Ekki bara þegar kemur að æfinga og keppnisaðstöðu fyrir íþróttafólk heldur ekki síður þegar kemur að vali fólks á búsetu. Góð íþróttaaðstaða og félagslegt starf er ein af lykilbreytunum þegar við veljum hvar við ætlum að búa.

Það líður varla mánuður á milli þess að maður lesi um myndarlega uppbyggingu hjá bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á Selfossi stendur til að fjárfesta fyrir 5,1 milljarð á næstu árum. Í Garðabæ fyrir 4,2 milljarða og í Mosfellsbæ fyrir 2 milljarða. Hafnfirðingar ætla að halda áfram sinni gríðarlegu uppbyggingu og munu setja 2,5 milljarð í fjárfestingar næstu árin. Reykjavíkurborg hefur staðið myndarlega að uppbyggingu hjá íþróttafélögum síðustu ár og ætlar að halda áfram, setur 7,6 milljarða í uppbyggingu á íþróttasvæði ÍR og Fram.  

Til samanburðar má reikna með 600 milljónum í fjárfestingar í íþróttamannvirkjum á Akureyri á næstu tveimur árum. Til að gæta sanngirni er eðlilegt að fara yfir þær fjárfestingar sem hafa átt sér stað á Akureyri síðustu 18 ár, en það er tímabilið sem talað er um í áðurnefndri skýrslu sem verulegt uppbyggingartímabil íþróttamannvirkja á Akureyri. Í mínum huga er þetta í raun átakanleg lesning. Á verðlagi hvers árs hafa farið 4,1 milljarður á árunum 2000-2016 í byggingar eða viðhald á íþróttamannvirkjum og heimfært á verðlag í maí 2016 eru þetta 7,1 milljarður.

En það ber að hafa í huga að inn í þessum tölum eru framkvæmdir sem ekki er hægt að eyrnamerkja íþróttamálum með beinum hætti. Staðreyndin er nefnilega sú að hér er að miklu leiti um fjárfestingu í ferðaþjónustu og skólahúsnæði að ræða heldur en nokkurn tímann íþróttaaðstöðu íþróttafélaga líkt og KA.

Við erum að tala Fjarkann, endurbætur á Sundlaug Akureyrar, íþróttahús við Síðuskóla, Giljaskóla, Naustaskóla, íþróttamiðstöð í Hrísey, uppbygging á Klöppum og síðast en ekki síst 3 vatnsrennibrautir. Þegar þessar framkvæmdir eru teknar út fyrir sviga kemur í ljós að bein fjárfesting í íþróttaaðstöðu íþróttafélaga nemur 2,2 milljörðum á verðlagi hvers árs. Það eru 140 milljónir á ári í 16 ár.

Ég tel að hér á Akureyri hafi einfaldlega verið fjárfest of lítið í uppbyggingu íþróttamannvirkja undanfarin ár og nú sé kaldur veruleikinn að koma í ljós. Af þessum sökum er samkeppnisstaða Akureyrar og KA að minnka verulega.

Einhverjir kunna að spyrja hvert er vandamálið. Hvers vegna er ekki löngu búið að taka ákvörðun um uppbyggingu á KA svæðinu, gera fullmótaða og tímasetta verkáætlun. Mitt svar er tiltölulega einfalt. Það skortir pólitískt þor og vilja þeirra sem ráða för og hafa ráðið mörg undanfarin ár. Því miður eru engar ákvarðanir teknar þegar kemur að stóru málunum, forgangsröðunin er óskýr og tilviljunakennd og fókusinn er frekar á skammtímalausnir í stað þess að fylgja fullmótaðri stefnu til að mynda Íþróttastefnu Akureyrarbæjar.

Staðreyndirnar og tölurnar tala sínu máli, meðan KA hefur stækkað, tekið á sig meiri ábyrgð, fleiri iðkendur og glætt bæjarlífið miklum ljóma með fjöldanum öllum af íþróttaviðburðum hafa fjárfestingar á félagssvæði okkar síðastliðin 20 ár numið 417 milljónum og inní þeirri tölu eru kaup Akureyrarbæjar á Íþróttahúsinu við Lundarskóla uppá 95 milljónir árið 2001. Húsi sem KA menn byggðu sjálfir. Það er ekki nema von að okkur sé brugðið þegar fyrir liggur að stærsta íþróttafélag bæjarins og eitt það stærsta í landinu hefur verið svelt í uppbyggingu og nánast hunsað svo árum skiptir.

Þetta er í mínum huga ósanngjarnt gagnvart KA mönnum, ósanngjarnt gagnvart því metnaðarfulla starfi sem hér er unnið og ósanngjarnt gagnvart afreksíþróttafólki okkar sem leggur á sig gríðarlega vinnu til að ná góðum árangri. Skilaboðin eru mjög skýr, úr aðstöðu okkar þarf að bæta og vinnan þarf að hefjast í dag.

Kæru KA menn, um leið og ég óska ykkur öllum til hamingju með afmælisbarnið okkar vil ég senda hvatningu til okkar allra að styðja við okkar frábæra íþróttafólk með jákvæðum og uppbyggilegum hætti sem best þið getið hvort sem það er á keppnisvellinum eða utan hans. Eigið góðar stundir og áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is