Brynjar Ingi og Rut íþróttafólk KA 2021

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak
Brynjar Ingi og Rut íþróttafólk KA 2021
Brynjar Ingi og Rut áttu frábært ár

Knattspyrnufélag Akureyrar fagnaði 94 ára afmæli sínu með afmælisþætti sem birtur var á miðlum félagsins í gær. Þar var farið yfir nýliðið ár sem var heldur betur blómlegt hjá öllum deildum félagsins og var því mikil spenna er við heiðruðum þá einstaklinga og lið sem stóðu uppúr á árinu.

Í annað skiptið í sögu félagsins var valinn íþróttakarl og íþróttakona ársins auk þess að velja þjálfara og lið ársins. Þessi breyting hefur reynst ansi vel og er svo sannarlega komin til að vera.

Við óskum verðlaunahöfum innilega til hamingju en efstu þrjú í kjörinu fá að launum formannabikar sem er gjöf frá fyrrum formönnum KA. Að þessu sinni voru það Hrefna G. Torfadóttir og Guðmundur Heiðreksson sem afhentu bikarana.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir var valin íþróttakona ársins en Rut er lykilleikmaður í meistaraliði KA/Þórs sem er handhafi allra titla sem í boði eru á Íslandi í handknattleik kvenna. Hún var valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna en Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina eftir 12 ára atvinnumannaferil. Rut er ekki bara stórkostlegur leikmaður heldur lyftir hún samherjum sínum einnig upp á hærra plan og er heldur betur vel að verðlaununum komin. Ekki nóg með að vera valin besti leikmaðurinn á lokahófi HSÍ þá fékk hún einnig Sigríðarbikarinn auk þess að vera valin besti sóknarmaðurinn. Rut er lykilleikmaður í íslenska A-landsliðinu.

Brynjar Ingi Bjarnason var annað árið í röð valinn íþróttakarl KA en frammistaða hans á árinu vakti heldur betur mikla athygli og var að lokum valinn í A-landslið Íslands þar sem hann hefur tryggt sér sæti í byrjunarliðinu. Alls lék hann 10 landsleiki á árinu og gerði í þeim tvö mörk. Í sumar lék Brynjar ellefu leiki fyrir KA í deild og bikar þar sem hann gerði eitt mark áður en hann var loks seldur til ítalska liðsins Lecce í júlí mánuði. Í lok árs var hann svo keyptur af norska stórliðinu Vålerenga og því heldur betur spennandi tímar framundan hjá þessum 22 ára kappa.

Rakel Sara Elvarsdóttir varð önnur í kjöri íþróttakonu KA en Rakel sem er aðeins 18 ára gömul átti stórkostlegt tímabil með KA/Þór þegar hún og stöllur hennar lönduðu öllum fjórum stóru titlunum sem í boði eru. Rakel vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína inná vellinum í Olísdeildinni en hún skoraði meðal annars 11 mörk úr 12 skotum í úrslitaleik við Fram um deildarmeistaratitilinn og skoraði mörg mikilvæg mörk í úrslitakeppninni gegn ÍBV og Val. Rakel var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar 2021 og var valin í fyrsta sinn í A-landsliðið núna í lok nóvember. Þá fór hún fyrir góðu liði U19 ára landsliðs Íslands á EM í Makedóníu í sumar.

Árni Bragi Eyjólfsson varð annar í kjöri íþróttakarls KA en hann var besti leikmaður KA tímabilið 2020-2021 í Olísdeild karla. Hann fór fyrir liðinu sem komst í fyrsta sinn í úrslitakeppni frá því að KA hóf að leika aftur handknattleik í karlaflokki. Þá var hann valinn besti leikmaður Olísdeildar karla en Árni Bragi átti stórbrotið tímabil og má með sanni segja að hann hafi hrifið hug og hjörtu KA-manna í vetur. Árni rakaði heldur betur til sín verðlaununum á lokahófi HSÍ en hann varð markakóngur deildarinnar, var valinn besti sóknarmaður, fékk Valdimarsbikarinn og uppskar Háttvísisverðlaun HSÍ.

Paula del Olmo Gomez varð þriðja í kjöri íþróttakonu KA en Paula átti frábært tímabil síðasta vetur með blakliði KA. Hún var stigahæsti leikmaður úrvalsdeildar kvenna þar sem hún gerði 351 stig en einnig var hún ein af þeim efstu í móttöku og blokk stigum. Þetta gerir Paulu að besta alhliðar leikmanni deildarinnar. Á síðasta tímabili leiddi Paula lið KA í úrslita leik Kjörísbikarsins þar sem KA endaði í 2. sæti, eftir að hafa unnið alla titla árið áður. Paula náði einnig á árinu 3. sæti á Íslandsmótinu í strandblaki. Paula er einnig frábær fyrirmynd innan sem utan vallar sem hefur laðað að fjölda iðkenda síðustu ár.

Steinþór Már Auðunsson varð þriðji í kjöri íþróttakarls KA en Steinþór kom aftur í knattspyrnulið KA fyrir síðasta sumar og er saga hans hálfgerð öskubuskusaga en hann var hugsaður sem varamarkvörður liðsins. Hinsvegar fer ekki alltaf allt eins og það á að fara og Steinþór hóf leik í marki KA í upphafi tímabils og stóð sig frábærlega, frá fyrsta leik til hins síðasta. Steinþór fékk mikið lof frá íslenskum fótboltasérfræðingum og var besti leikmaður KA sem rétt missti af þriðja sætinu í Pepsi-deildinni. KA endaði í fjórða sæti deildarinnar og fékk á sig næst fæst mörkin í deildinni, aðeins 20 mörk í 22 leikjum og var það Steinþóri oft að þakka sem var kjörinn leikmaður ársins hjá liðinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is