Brynjar Ingi lék 80 mínútur gegn Mexíkó

Fótbolti

Brynjar Ingi Bjarnason lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd í nótt er Ísland mætti Mexíkó í æfingaleik í Dallas í Bandaríkjunum. Brynjar Ingi sem er aðeins 21 árs gamall var í byrjunarliðinu og lék nær allan leikinn í hjarta varnarinnar í 2-1 tapi Íslands.

Mexíkó sem stendur í 11. sæti heimslista FIFA hefur á að skipa gríðarlega sterku liði en þrátt fyrir ansi krefjandi verkefni má með sanni segja að okkar maður hafi nýtt tækifærið vel. Binni lék vel og bjargaði meðal annars af línu í upphafi síðari hálfleiks í stöðunni 0-1 fyrir Ísland en Birkir Már Sævarsson kom Íslandi yfir eftir um kortérsleik.

Er leið á síðari hálfleikinn fóru leikmenn Mexíkó að pressa gríðarlega á Íslenska liðið og þeir jöfnuðu á 72. mínútu eftir að Brynjar Ingi hafði átt misheppnaða sendingu á miðsvæðinu. Annað mark Mexíkóa kom svo skömmu síðar er Hector Herrera átti góðan einleik og lagði svo boltann fyrir markið þar sem Hirving Lozano skoraði öðru sinni. Í kjölfarið datt tempóið í leiknum niður og var lítið um færi.

Binni var svo tekinn af velli á 80. mínútu og getur verið ansi sáttur með sína spilamennsku. Það er ekki nokkur spurning að með frammistöðu sinni hefur Binni minnt rækilega á sig og mun klárlega fá fleiri tækifæri á næstunni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is