Böggubikarinn, þjálfari og lið ársins

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Böggubikarinn, þjálfari og lið ársins
Dagur Árni og Ísfold Marý hlutu Böggubikarinn

Á 95 ára afmælisfögnuði KA um helgina var Böggubikarinn afhentur í níunda sinn auk þess sem þjálfari ársins og lið ársins voru valin í þriðja skiptið. Það er mikil gróska í starfi allra deilda KA um þessar mundir og voru sex iðkendur tilnefndir til Böggubikarsins, átta til þjálfara ársins og sex lið tilnefnd sem lið ársins.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Tilnefningar til Böggubikarsins

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir hlaut Böggibikar stúlkna en hún er vel spilandi sóknarsinnaður miðjumaður sem spilaði upp alla yngriflokka hjá KA en spilar nú í sameiginlegu liði meistaraflokks Þórs/KA. Ísfold hefur nú þegar spilað 45 leiki í efstudeild kvenna og skorað í þeim eitt mark. Ísfold spilaði 6 leiki fyrir U18 og U19 ára landslið Íslands á þessu ári og skoraði í þeim eitt mark.

Ísfold sinnir æfingum af miklum krafti, hefur gott hugarfar og leggur mikinn metnað í að bæta sig sem knattspyrnukonu. Hún er því yngri iðkendum félagsins góð fyrirmynd. Það verður áhugarvert að fylgjast með henni á komandi sumri þar sem hún hefur alla burði til að koma sér inn í enn stærra hlutverk í meistaraflokki Þórs/KA.

Dagur Árni Heimisson hlaut Böggubikar drengja en Dagur er einn efnilegasti leikmaður landsins en hann var mikilvægur hluti af liði 4. flokks KA sem vann allt sem í boði var í síðasta vetur og stóð því uppi sem Íslands-, bikar og deildarmeistari. Til að kóróna tímabilið vann liðið loks Partille Cup í B16 ára flokki en þar keppa sterkustu lið á Norðurlöndum og eins og áður var Dagur Árni í lykilhlutverki.

Dagur Árni hefur sýnt það bæði innan vallar sem utan hvaða dreng hann hefur að geyma. Duglegur og umfram allt mikill liðsmaður. Hann er duglegur á æfingum og stundar sína íþrótt að mikilli kappsemi. Þá er hann afar úrræða góður en jafnframt mikill liðsfélagi. Dagur hefur vaxið mikið að undanförnu og í vetur hefur hann verið að stíga sín fyrst skref með meistaraflokki aðeins 16 ára gamall.

Tilnefningar til þjálfara ársins

Miguel Mateo Castrillo var valinn þjálfari ársins en hann hefur þjálfað meistaraflokk kvenna í blaki undanfarin ár með afar árangursríkum hætti og var seinasta ár engin undantekning frá því. Á síðasta tímabili varð liðið Deildar-, Bikar- og Íslandsmeistarar og hampaði því öllum þeim titlum sem í boði voru það tímabilið. Liðið sýndi mikla yfirburði þrátt fyrir ýmsar áskoranir yfir tímabilið og tapaði einungis einum leik allan veturinn, ásamt því að tapa ekki hrinu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Í lok tímabilsins var Mateo valin besti þjálfari úrvalsdeildar BLÍ. Þrátt fyrir töluverðar mannabreytingar frá seinasta tímabili, þar sem reynslu miklir leikmenn hafa leitað annað og yngri og efnilegir leikmenn stigið upp, hefur Mateo enn og aftur sýnt styrk sinn sem þjálfari. Þar sem af er þessu tímabili situr meistaraflokkur kvenna í efsta sæti úrvalsdeildarinnar, ásamt því að hafa orðið Meistarar meistarana í upphafi tímabilsins.

Tilnefningar til liðs ársins

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu var valinn lið ársins en strákarnir náðu næstbesta árangri í sögu félagsins er liðið endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar og fór í undanúrslit í Mjólkurbikarsins. KA liðið náði 53 stigum í 27 leikjum eða 1,96 stigum að meðaltali sem er besti árangur liðsins frá upphafi og tryggði sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Í gegnum tíðina þá hafa stigin oft verið alltof fá á útivelli en í ár var KA með bestan árangur allra liða á útivelli, þrátt fyrir það að strákarnir hafi ferðast liða mest í deild þeirra bestu. Strákarnir voru einnig gríðarlega öflugir á heimavelli en loksins fengum við að berja liðið okkar augum á KA-svæðinu. KA-liðið er í 2.-3. sæti í annarri tölfræði eins og stig á heimavelli, mörk skoruð og mörk fenginn á sig.

Tímabilið var því virkilega heilsteipt og árangurinn er engin tilviljun. Stjórn og sjálfboðaliðar eiga mikið í þessum árangri en einn af lykilþáttum árangursins var að spila á KA-svæðinu á nýjum gervigrasvelli. Þjálfarateymið og leikmenn voru agaðir og einbeittir að ná árangri frá fyrsta leik. Árangurinn í sumar var án nokkurs efa uppskera mikillar vinnu síðustu ára hjá hópnum og verður gaman að fylgjast áfram með framgöngu okkar magnaða hóps.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is