Bikarslagur Þórs/KA og Stjörnunnar á morgun

Fótbolti
Bikarslagur Þórs/KA og Stjörnunnar á morgun
Það verður hart barist á morgun (mynd: Þ.Tr.)

Það er enginn smá leikur í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins hjá Þór/KA á morgun þegar liðið tekur á móti Stjörnunni. Leikurinn fer fram á Þórsvelli og hefst klukkan 17:15 og er alveg ljóst að stelpurnar þurfa á öllum þeim stuðning að halda sem í boði er.

Liðin mættust í 8-liða úrslitum í fyrra og þá unnu Stjörnustúlkur 3-2 með marki á lokamínútunum. Þór/KA er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og hefur farið frábærlega af stað en bikarinn er allt önnur keppni og þar er hver einasti leikur úrslitaleikur.

Stjarnan er með öflugt lið en hefur hikstað aðeins í upphafi sumars og klárt mál að þær munu leggja allt kapp á að fara áfram í bikarkeppninni enda alltaf stefnan í Garðabænum að hala inn bikar.

Við hvetjum ykkur öll til að mæta á morgun og styðja stelpurnar okkar til sigurs, liðið hefur verið algjörlega frábært og þær ætla sér að vinna bæði deild og bikar og til að það gangi upp má alls ekki misstíga sig í þessum mikilvæga leik, áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is