Bergrós Ásta framlengir um tvö ár

Handbolti
Bergrós Ásta framlengir um tvö ár
Stefán formaður KA/Þórs og Bergrós Ásta

Bergrós Ásta Guðmundsdóttir skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og er nú samningsbundin liðinu út tímabilið 2026-2027. Bergrós sem er uppalin hjá KA/Þór á framtíðina fyrir sér og afar jákvætt að hún hafi skrifað undir nýjan samning.

Bergrós Ásta sem er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi en hún verður 18 ára síðar á árinu tekur mikið til sín í leikjum, er gríðarlega sterk maður á móti manni og hefur gott auga fyrir línusendingum. Með dugnaði og vinnusemi þá hefur hún tekið gríðarlega miklum framförum undanfarin ár og hefur verið í lykilhlutverki í meistaraflokksliði KA/Þórs undanfarin tvö tímabil.

Á nýliðnu tímabili lék hún alla leiki liðsins er KA/Þór stóð uppi sem sigurvegari í Grill66 deildinni og það án þess að tapa leik. Bergrós stýrði spili liðsins og átti fjölmargar stoðsendingar á liðsfélaga sína auk þess sem hún var næstmarkahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu. Þá var hún valin efnilegasti leikmaður KA/Þórs veturinn 2023-2024.

Bergrós er einnig fastamaður í yngrilandsliðum Íslands og var hún var hluti af U-18 landsliðinu sem gerði góða hluti á HM í Kína síðasta sumar. Það eru ákaflega jákvæðar fréttir að hún sé búin að skrifa undir nýjan samning og hlökkum við til að fylgjast áfram með henni næstu árin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is