Arna Valgerður aðalþjálfari KA/Þórs

Handbolti
Arna Valgerður aðalþjálfari KA/Þórs
Spennandi vetur framundan undir stjórn Örnu!

Arna Valgerður Erlingsdóttir hefur verið ráðin aðalþjálfari kvennaliðs KA/Þórs og er mikil eftirvænting í okkar herbúðum fyrir komandi vetri. KA/Þór hefur á undanförnum árum stimplað sig inn sem eitt besta lið landsins og hampað meðal annars Íslandsmeistaratitlinum og Bikarmeistaratitlinum.

Arna hefur verið í lykilhlutverki í þeirri vegferð, bæði sem leikmaður og þjálfari en hún var áður aðstoðarþjálfari liðsins. Stefna KA/Þórs hefur ætíð verið sú að byggja upp uppalda leikmenn og því afar gott skref að fá Örnu inn sem aðalþjálfara enda þekkir hún vel til okkar starfs og okkar gilda.

Arna Valgerður er öllum hnútum kunnug hjá okkur og hefur frá unga aldri þjálfað yngriflokka KA/Þórs auk þess að leika með liðinu. Sem leikmaður lék Arna alls 138 leiki í deild og bikar fyrir KA/Þór og var valin í A-landslið Íslands. Arna tók við sem aðalþjálfari liðsins fyrr í sumar og hefur undirbúningurinn fyrir komandi tímabil farið vel af stað en ásamt ráðningunni á Örnu höfum við ráðið Egil Ármann Kristinsson sem styrktarþjálfara liðsins.

Stefán Guðnason formaður kvennaráðs KA/Þórs hafði þetta um ráðningu Örnu að segja: "Við erum einstaklega ánægð með að fá Örnu til starfa hjá okkur. Þegar Andri Snær sagði upp störfum var Arna strax mjög ofarlega á blaði hjá okkur. Hún hefur starfað lengi hjá félaginu, veit hvað við stöndum fyrir og er gríðarlega hæfileikaríkur þjálfari, það þekki ég af eigin raun eftir að hafa starfað með henni lengi. Við erum í ákveðnum uppbyggingafasa og við teljum Örnu vera frábæran kost til að leiða okkar unga og efnilega lið upp á næsta þrep."

Veislan í Olísdeildinni hefst laugardaginn 9. september næstkomandi þegar stelpurnar okkar taka á móti ÍBV í KA-Heimilinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is