91 árs afmæli KA á sunnudag

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
91 árs afmæli KA á sunnudag
Við bjóðum ykkur öll velkomin á sunnudaginn

Knattspyrnufélag Akureyrar fagnar 91 árs afmæli sínu sunnudaginn 6. janúar næstkomandi í KA-Heimilinu klukkan 14:00. Boðið verður upp á léttar veitingar auk þess sem íþróttamaður KA verður verðlaunaður sem og Böggubikarinn verður afhentur. Við bjóðum alla velkomna til að taka þátt í gleðinni með okkur og hlökkum til að sjá ykkur.

Fjórir íþróttamenn eru tilnefndir sem íþróttamaður KA á nýliðnu ári og eru þau eftirfarandi:

Alexander Heiðarsson, júdódeild. Alexander varð Íslandsmeistari -66 kg í flokki fullorðinna og varð í 2. sæti í -60 kg flokki U-21 árs. Þá vann hann til silfurverðlauna á Budo Nord Cup í Svíþjóð auk þess að hampa bronsverðlaunum á RIG mótinu í Bretlandi í flokki fullorðinna -66 kg. Með afrekum sínum hefur Alexander unnið sér þátttökurétt á Ólympíuleikum æskunnar sem og á smáþjóðaleikunum.

Anna Rakel Pétursdóttir, knattspyrnudeild. Anna Rakel var útnefnd íþróttamaður KA árið 2017 og átti frábært ár 2018. Með Þór/KA varð hún í 2. sæti á Íslandsmóti, varð meistari meistaranna og komst í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Anna Rakel lék alla leiki liðsins í sumar og lék sína fyrstu A-landsleiki sem urðu fjórir á árinu. Þá lauk hún árinu með því að skrifa undir atvinnumannasamning við Linköpings FC í Svíþjóð.

Filip Szewczyk, blakdeild. Filip sem er spilandi þjálfari karlaliðs KA var potturinn og pannan í liði KA sem vann alla titla sem í boði voru á árinu en það voru Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitill auk þess sem liðið er meistari meistaranna. Filip var kjörinn besti leikmaður deildarinnar sem og besti uppspilarinn á síðustu leiktíð. KA liðið er á toppi Mizunodeildarinnar það sem af er núverandi leiktíð.

Martha Hermannsdóttir, handknattleiksdeild. Martha fór fyrir liði KA/Þórs sem vann sigur í Grill 66 deildinni á síðustu leiktíð þar sem hún lék 13 leiki og gerði 74 mörk. Martha var valin besti leikmaður deildarinnar og þá gerði hún 35 mörk í 3 leikjum þegar liðið komst í undanúrslit Bikarkeppninnar. Hefur gert 62 mörk í 10 leikjum í vetur sem tryggði henni sæti í A-landsliði Íslands auk þess sem hún var valin í úrvalslið fyrri hluta Olís-deildar kvenna.

Þá eru 7 ungir iðkendur tilnefndir til Böggubikarsins sem eru tveir farandbikarar, gefnir af Gunnari Níelssyni, Ragnhildi Jósefsdóttur og börnum þeirra til minningar um Sigurbjörgu Níelsdóttur, Böggu, systur Gunnars. Bögga var fædd þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011.

Böggubikarinn skal veittur þeim einstaklingum, pilti og stúlku, sem eru á aldrinum 16- 19 ára og þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.

Andrea Þorvaldsdóttir, blakdeild. Andrea er búin að æfa blak með öllum yngri flokkum KA, þar sem áhuginn fyrir blakinu hefur verið mikill hjá henni og ástundun til fyrirmyndar í öll þessi ár. Andrea hefur spilað með yngri landsliðum síðastliðin ár sem og einnig æft og spilað undanfarin tvö tímabil með meistarflokki KA. 

Andrea er einnig fórnfús í sjálfboðastarf hjá deildinni og dugleg að bjóða fram aðstoð sína ef á þarf að halda og skilar sínu vel. Hún er sterkur liðsmaður bæði blaklega og ekki síður félagslega þar sem hún er hvetjandi fyrir liðið innan vallar sem utan.

Blakdeildin tilnefnir ekki dreng.

Alexander Heiðarsson, júdódeild. Alexander hefur æft Júdó frá fjögurra ára aldri. Hann hefur verið efnilegasti júdómaður Íslands síðustu árin. Erfitt er að finna annan einstakling með sömu hæfileika og hann en þar fyrir utan er hann ótrúlega duglegur að æfa og hugsa um sína íþrótt út frá öllum sjónarhornum. Hann hefur verið valin í landslið í mörg ár og nánast undantekningalaust hefur hann unnið til verðlauna á mótum erlendis. Fyrir utan að vera magnaður íþrótta- og keppnismaður þá er hann Alexander mjög hógvær og jarðbundinn strákur sem er alltaf tilbúinn til þess að aðstoða og kenna öðrum. Hann er mjög góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur júdódeildar KA, hvort sem er eldri eða yngri.

Anna Þyrí Halldórsdóttir, handknattleiksdeild. Anna Þyrí Halldórsdóttir er fædd árið 2001 og leikur sem línumaður í meistaraflokksliði KA/Þór í Olís-deild kvenna. Anna var hluti af sterkum hóp liðsins í fyrra sem fór upp úr Grill66 deild kvenna með yfirburðum. Í vetur hefur hún síðan stigið upp og leikur stórt hlutverk í Olís-deild kvenna með liðinu. Árangur Önnu hefur svo sannarlega vakið athygli en nýverið var hún valin í U19 ára landslið Íslands. Anna er jákvæð og hefur góð áhrif á liðsfélagana í kringum sig. Hún er einnig hógvær og kemur hennar góði árangur henni sennilega mest á óvart sjálfri, en hún hefur verið gríðarlega dugleg að æfa á árinu, bæði í handboltasalnum og lyftingarsalnum.

Berenika Bernat, júdódeild. Berenika hefur æft júdó af mikilli alúð síðan hún var ung að aldri. Hún hefur seinustu árin dafnað og þroskast mikið í júdóusamfélaginu, verið valin í landslið og keppt á erlendri grundu fyrir Íslands hönd með góðum árangri. Fyrir utan að vera mjög góð í sinni íþrótt þá er Berenika einnig mjög dugleg að gefa af sér á æfingum og hjálpar öðrum sem eru styttra komin til að aðlagast æfingaumhverfinu. Hún er jákvæður og hvetjandi æfingafélagi, er ávallt félagi sínu til sóma á mótum og er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur.

Dagur Gautason, handknattleiksdeild. Þrátt fyrir ungan aldur lék Dagur Gautason gríðarlega stórt hlutverk í liði KA sem vann sér sæti í efstu deild karla í sinni fyrstu tilraun sem nýtt lið í karlaflokki í handknattleik. Dagur, spilar sem vinstri hornamaður og gerði 66 mörk í Grill-66 deildinni en að auki leikur hann stórt hlutverk í vörninni. Dagur er hvetjandi, drífandi og gríðarlega brosmildur leikmaður. Hann hefur mikla ástríðu fyrir íþróttinni, sem og félaginu. Hugarfar hans er framúrskarandi Dagur æfir gríðarlega vel, gerir mikið aukalega og tekur tilsögn mjög vel. Seinasta sumar lék Dagur lykilhlutverk með U-18 ára landsliði Íslands sem vann silfurverðlaun á Evrópumótinu í Króatíu. Á mótinu var Dagur valinn í lið mótsins sem besti vinstri hornamaðurinn. Á fyrsta tímabili KA í efstu deild hefur hann núna simplað sig vel inn og m.a. valinn í lið fyrri hluta Íslandsmótsins í vinstra horninu af Seinni Bylgjunni.

Frosti Brynjólfsson, knattspyrnudeild. Þetta var viðburðarríkt og reynslumikið ár hjá Frosta sem stimplaði sig enn frekar inn í meistaraflokkshóp KA. Hans helsta afrek var að spila sína fyrstu leiki í Pepsideildinni. Frosti byrjaði árið af krafti þar sem hann varð Kjarnafæðismeistari með meistaraflokk í A-deild og 2. fl. í B-deild. Í kjölfarið tók Frosti þátt í öllum leikjum KA í lengjubikarnum þar sem KA vann sinn riðil en beið lægri hlut gegn Grindavík í undanúrslitum. Rétt fyrir sumarið varð Frosti fyrir því óláni að fá einkirningasótt sem þýddi að hann gat ekki fylgt góðum vetri eftir eins og hann vildi. Þrátt fyrir það þá spilaði Frosti í sumar 6 leiki í deild og bikar fyrir meistaraflokk ásamt því að spila með 2. flokk félagsins í A-deild.

Karen María Sigurgeirsdóttir, knattspyrnudeild. Þrátt fyrir ungan aldur fékk Karen María smjörþefinn af meistaraflokksbolta árið 2017. Hún var því reynslunni ríkari fyrir þetta ár þar sem hún spilaði bæði með Hömrunum og Þór/KA. Hennar helsta afrek á árinu var að spila í Meistaradeild Evrópu. Karen María spilaði með Hömrunum varaliði Þór/KA í Lengjubikarnum og Inkasso deildinni framan af árinu. Þar fór hún með þeim í undanúrslit í C-deild Lengjubikarins og spilaði 11 leiki í Inkasso og skoraði þrjú mörk. Í félagsskiptaglugganum skipti hún yfir í Þór/KA þar sem hún spilaði 5 leiki í Pepsi og skoraði eitt mark. Karen María hjálpaði því liðinu að ná öðru sæti deildarinnar. Hún spilaði einnig 5 leiki í Meistaradeild Evrópu þar sem hún mætti t.d. Wolfsburg sem er eitt besta lið heims. Karen María spilaði einnig með 2. fl. félagsins sem komst í úrslitaleik bikarkeppni KSÍ en beið þar lægri hlut gegn FH.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is