6 Íslandsmeistaratitlar og 3 íslandsmet

Almennt
6 Íslandsmeistaratitlar og 3 íslandsmet
Hluti keppenda frá lyftingadeild KA

Íslandsmeistaramót Kraftlyftingasambands Íslands fór fram með glæsibrag hjá lyftingadeild Stjörnunnar í Miðgarði í Garðabæ á laugardag. Keppt var í þyngdarflokkum bæði í klassískum kraftlyftingum og búnaðarlyftingum. 

KA átti þar sjö keppendur, sex karla og eina konu, og var þetta í fyrsta skiptið sem KA sendir keppendur á kraftlyftingamót í ára raðir.  

Keppendur lyftingadeildar á ÍM

Eins og KA fólki er orðið kunnugt stofnaði félagið lyftingadeild 24 mars 2022 og verður deildin því eins árs í lok mánaðarins. Samkvæmt reglum Kraftlyftingasambands Íslands er óheimilt að hafa félagsskipti nema um áramót og var þetta því í fyrsta skiptið sem iðkendur deildarinnar gátu keppt í kraftlyftingum undir merkjum félagsins.  

Það má með sanni segja að félagið hafi staðið sig með sóma á mótinu. Sex Íslandsmeistaratitlar, ein silfurverðlaun og þrjú Íslandsmet skiluðu sér heim í KA heimilið ásamt því að félagið endaði í öðru sæti í liðakeppninni í karlaflokki með 45 stig. 

Drífa með gullverðlaun í -57kg flokki kvk

Drífa Hrund Ríkarðsdóttir keppti í -57kg flokki kvenna í klassískum kraftlyftingum. Þetta var frumraun Drífu í keppni og má segja að framtíðin sé björt hjá henni. Drífa lyfti þyngst 125kg í hnébeygju, 65kg í bekkpressu og í réttstöðulyftu sló Íslandsmetið í þyngdarflokknum með 160kg lyftu. 

Grímur Már Arnarsson keppti í -93kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum, en Grímur sem er fæddur árið 2003 er gjaldgengur í ungmennaflokk. Grímur lyfti 222.5kg í hnébeygju, 160kg í bekkpressu og 245kg í réttstöðulyftu. Grímur bættir þar með persónulegan árangur í öllum lyftum og samanlagðri þyngd á mótinu og skilaði það honum silfurverðlaunum í öflugum flokki. 

Í -105kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum átti KA tvo keppendur. Þeir Viktor Samúelsson og Erling Tom Erlingsson.  

Viktor gerði sér lítið fyrir og sigraði flokkinn ásamt því að vera stigahæsti karl mótsins í klassískum kraftlyftingum og er hann því Íslandsmeistari í -105kg flokki og í opnum flokki. Hann lyfti 280kg í hnébeygju, 201kg í bekkpressu sem er nýtt Íslandsmet, og 320kg í réttstöðulyftu. Viktor mun síðan keppa á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum fyrir Íslands hönd sem fram fer á Möltu í júní.  

Erling Tom er fæddur árið 1978 og er því gjaldgengur í öldungaflokk. Hann lyfti 200kg í hnébeygju og sló þar með Íslandsmet í öldungaflokki, 115 kg í bekkpressu og 210kg í réttstöðulyftu. Lyfturnar skiluðu honum sjötta sæti í þyngdarflokknum.  

Örvar Samúelsson keppti í -120kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum. Örvar lyfti 247.5kg í hnébeygju, 170kg í bekkpressu og 260kg í réttstöðulyftu. Lyfturnar skiluðu Örvari fjórða sæti í öflugum þyngdarflokki. 

Þorsteinn Ægir hnébeygja

Þorsteinn Ægir Óttarsson keppti í +120kg flokki karla í klassískum kraftlyftingum. Steini lyfti 315kg í hnébeygju, 190kg í bekkpressu og 305kg í réttstöðulyftu sem skilaði honum gullverðlaunum og Íslandsmeistaratitli í þyngdarflokknum. Þetta voru bætingar hjá Steina í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlagðri þyngd.  

Alex Cambray Orrason keppti síðan í -93kg flokki karla í búnaðarlyftingum. Alex fékk allar sínar lyftur gildar en hann lyfti 317.5kg í hnébeygju, 202.5kg í bekkpressu og 275kg í réttstöðulyftu. Þetta skilaði Alex gullverðlaunum og Íslandsmeistaratitli í sínum þyngdarflokki. Þar að auki var Alex stigahæsti karl í búnaðarlyftingum og er hann því einnig Íslandsmeistari í opnum flokki karla í búnaðarlyftingum. Þessa dagana undirbýr Alex sig fyrir Evrópumeistaramótið í búnaðarlyftingum sem fram fer í Danmörku í byrjun maí.  

Ljóst er að mikil gróska er í lyftingadeild KA og verður spennandi að fylgjast með starfinu á árinu. Deildin heldur uppá eins árs afmæli í lok mars. Þá mun deildin standa fyrir tveimur mótum á árinu, Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu fer fram 20.maí næstkomandi og sumarmót LSÍ í ólympískum lyftingum 24.júní. En bæði mótin fara fram í KA heimilinu.  

Lyftingadeild KA þakkar þeim fyrirtækjum sem styðja við bakið á okkur, Höldur bílaleiga Akureyrar, Niðavellir heilsumiðstöð, Möl og Sandur o.fl. Ykkar stuðningur er ómetanlegur og gerir deildinni kleift að vaxa og dafna og styðja við bakið á íþróttafólkinu okkar. 

# Lyfti fyrir KA  


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is