5-0 stórsigur og sæti í úrslitum tryggt

Fótbolti
5-0 stórsigur og sæti í úrslitum tryggt
Þriðji stórsigurinn staðreynd (mynd: Sævar Geir)

KA mætti Dalvík/Reyni í lokaleik sínum í riðli 1 í Kjarnafæðismótinu í gærkvöldi. Fyrir leikinn hafði KA unnið 6-0 sigur á KF og 5-1 sigur á Þór 2 og dugði því jafntefli gegn liði Dalvík/Reynis til að tryggja sér sæti í úrslitaleik mótsins.

Það varð strax ljóst í hvað stefndi því KA tók öll völd á vellinum frá fyrstu mínútu og stýrði ferðinni. Gestirnir vörðust aftarlega og reyndu hvað þeir gátu til að stöðva sóknir okkar liðs en fyrir vikið var ekki mikil hætta sem stafaði af leik gestanna.

Sveinn Margeir Hauksson gerði fyrsta markið á 26. mínútu þegar hann þrumaði boltanum laglega í netið beint úr aukaspyrnu. Fleiri urðu mörkin hinsvegar ekki í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.

KA gerði tvær breytingar í hléinu en Steinþór Már Auðunsson kom í markið fyrir Kristijan Jajalo og Angantýr Máni Gautason kom inn fyrir Nökkva Þeyr Þórisson. Angantýr hafði einmitt skorað jöfnunarmark fyrir KF gegn Dalvík/Reyni á dögunum og hann var ekki lengi að koma sér á blað.

Angantýr kom KA í 2-0 á 50. mínútu eftir góða sendingu frá Andra Fannari Stefánssyni. Við þetta gjörbreyttist leikurinn, gestirnir fóru framar á völlinn og fyrir vikið fengu sóknarmenn KA meira pláss og skemmtanagildi leiksins jókst því til muna.

Það leið ekki á löngu uns þriðja markið kom og þar var á ferðinni Ásgeir Sigurgeirsson eftir laglegan sprett frá Hrannari Birni Steingrímssyni inn á teiginn þar sem hann renndi boltanum til Ásgeirs sem kláraði af stakri snilld.

Ásgeir var svo aftur á ferðinni á 65. mínútu með keimlíku marki en í þetta skiptið var það Steinþór Freyr Þorsteinsson sem keyrði inn á teiginn frá hinum kantinum, renndi boltanum á Ásgeir sem skoraði af öryggi.

Ívar Örn Árnason gerði loks fimmta og síðasta mark leiksins þegar hann skallaði hornspyrnu Sveins Margeirs í markið. Hornspyrnan kom uppúr hörkuskoti frá Björgvini Mána Bjarnasyni sem hafði komið inn á skömmu áður en Björgvin átti flotta innkomu í leikinn.

KA vann þar með alla þrjá leiki sína í riðlinum og er því komið í úrslitaleikinn þar sem strákarnir mæta liði Þórs í nágrannaslag. Leikurinn mun hinsvegar ekki fara fram fyrr en eftir Lengjubikarinn og verður því líklega ekki spilaður fyrr en í apríl. Næsti leikur er hinsvegar gegn Íslandsmeisturum Vals 13. febrúar í Boganum og verður í beinni á KA-TV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is