Flýtilyklar
4. flokkur KA Stefnumótsmeistari
Stefnumót KA í 4. flokki karla fór fram um helgina en alls léku 22 lið á mótinu þar af fimm frá KA auk eins kvennaliðs frá 3. flokki Þórs/KA. Mótið fór afskaplega vel fram og tókst vel fylgja sóttvarnarreglum en leikið var í Boganum og á KA-vellinum. KA-TV sýndi alla leiki mótsins í Boganum beint og var mikil ánægja með það framtak.
Leikið var í þremur styrkleikaflokkum en í efsta styrkleika léku KA 1, KA 2 og Þór/KA en leikið var í tveimur riðlum. KA 1 tryggði sér sæti í undanúrslitum með því að enda í 2. sæti síns riðils en KA 2 og Þór/KA enduðu í 3. og 4. sæti í sínum riðli og léku því um 5.-8. sætið.
KA 1 var ekki í vandræðum með að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum með 5-0 sigri á liði Austurlands. Í úrslitunum mættu strákarnir liði Víkings Reykjavík en höfðu unnið leik liðanna í riðlinum 2-0. Strákarnir hefndu fyrir það tap með frábærum leik og tryggðu sér gullið með 3-1 sigri. KA 2 og Þór/KA mættust loks í leiknum um 7. sætið og eftir skemmtilegan leik voru það strákarnir sem fóru með 4-3 sigur af hólmi en stelpurnar höfðu unnið 1-0 sigur í leik liðanna í riðlakeppninni.
KA 3 og KA 4 léku í öðrum styrkleika en leikið var í tveimur riðlum og loks um sæti. KA 3 vann sannfærandi sigur í sínum riðli og fór því í undanúrslitin þar sem liðið mætti Þór 4. Eftir hörkuleik vannst 2-1 sigur og strákarnir komnir í úrslitaleikinn. Í úrslitaleiknum léku strákarnir við Vestra og þegar upp var staðið voru það Vestramenn sem unnu 1-0 sigur og silfurverðlaun því niðurstaðan að þessu sinni.
Lið KA 4 hafði ekki alveg heppnina með sér í riðlinum og þurfti því að sætta sig við að leika um 5.-8. sætið. Eftir 1-2 tap gegn Þór 3 léku strákarnir því um 7. sætið þar sem þeir lögðu Víkinga að velli.
Að lokum keppti KA 5 í þriðja styrkleika en þar léku sex lið í deild þar sem allir léku við alla. Eftir fína spretti enduðu strákarnir í 4. sætinu og geta verið þokkalega ánægðir með niðurstöðuna en allir leikir liðsins voru jafnir og spennandi. Lið Magna stóð uppi sem sigurvegari en nokkrir leikmenn Magna æfa með KA og eigum við því smá í þeim flotta árangri Grenvíkinga.