Sigur í fyrsta heimaleiknum (myndaveisla)

Handbolti
Sigur í fyrsta heimaleiknum (myndaveisla)
Anna Þyrí skorar í sigrinum mikilvæga (mynd: EBF)

KA/Þór tók á móti Haukum í fyrsta heimaleik vetrarins á sunnudaginn en liðunum er spáð svipuðu gengi í vetur og úr varð hörkuleikur þar sem stelpurnar okkar náðu að knýja fram sigur á lokasekúndum leiksins.

Fyrir leik var Martha Hermannsdóttir hyllt en hún hefur nú lagt skóna á hilluna eftir magnaðan feril. Hún er án nokkurs vafa mesta goðsögn í sögu KA/Þórs en hún var fyrirliði liðsins sem hampaði Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitlum og lék alls 308 leiki fyrir félagið.

Sem betur fer munum við áfram njóta krafta Mörthu í kringum liðið og var hún starfsmaður á leiknum á sunnudaginn auk þess sem hún hefur tekið að sér þjálfun yngriflokka hjá KA/Þór.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Leikurinn fór fjörlega af stað og voru stelpurnar okkar með yfirhöndina þó gestirnir hafi aldrei verið langt undan. Tempóið datt aðeins niður er leið á fyrri hálfleikinn og gekk liðunum bölvanlega að skora um miðbik hálfleiksins en KA/Þór leiddi 11-10 í hálfleik.

Matea Lonac var stórkostleg í markinu en hún varði alls 20 skot í leiknum og var í lykilhlutverki er KA/Þór náði að slíta sig fimm mörkum frá Haukunum er leið á síðari hálfleikinn. En gestirnir komu sér aftur inn í leikinn og úr varð svakaleg spenna á lokamínútunum.

Spennustigið var hátt og voru því mistök á báða bóga en að lokum tókst að tryggja sætan 26-25 sigur og afar mikilvæg tvö stig í hús. Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst í okkar liði með 5 mörk rétt eins og Lydía Gunnþórsdóttir en Lydía sem verður 16 ára gömul síðar í mánuðinum sýndi stáltaugar á vítapunktinum og brást ekki bogalistin í fimm tilraunum.

Unnur Ómarsdóttir lék töluvert fyrir utan og gerði 4 mörk rétt eins og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir. Anna Þyrí Halldórsdóttir gerði 3 mörk, Hrafnhildur Irma Jónsdóttir 2 mörk og þær Katrín Vilhjálmsdóttir, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Júlía Björnsdóttir gerðu allar eitt mark.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is