Mikilvægur sigur KA gegn Gróttu (myndaveisla)

Handbolti
Mikilvægur sigur KA gegn Gróttu (myndaveisla)
Tvö stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Gróttu í 11. umferð Olísdeildar karla í KA-Heimilinu í gær en fyrir leikinn voru gestirnir einu stigi fyrir ofan í deildinni og ljóst að strákarnir þyrftu nauðsynlega á sigri til að lyfta sér ofar í deildinni fyrir síðari umferðina.

Grótta vann 10 marka sigur á liði ÍBV í síðustu umferð þar sem Seltirningar gjörsamlega keyrðu yfir Eyjamenn í upphafi leiks. En það varð algjör andstæða í KA-Heimilinu en stemningin á pöllunum var frábær og strákarnir greinilega vel stemmdir og klárir í slaginn.

KA liðið hóf leikinn af gríðarlegum krafti og tók strax undirtökin. Bæði lið hófu leikinn á að spila 3-2-1 vörn en með afar misjöfnum árangri og var staðan orðin 9-2 fyrir KA eftir um 13 mínútna leik. Áfram leiddu strákarnir með sjö mörkum, 11-4, þegar fyrri hálfleikurinn var rétt rúmlega hálfnaður en þá fóru gestirnir að finna taktinn og þeir löguðu stöðuna í 15-12 sem voru hálfleikstölur.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Tímalína fyrri hálfleiks

Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu hikar iðulega ekki við að gera taktískar breytingar og brjóta upp leikinn. Það getur því oft reynst þrautin þyngri að halda dampi í 60 mínútur gegn Gróttu og síðari hálfleikur varð afar sveiflukenndur.

Gestunum tókst að minnka muninn niður í tvö mörk og litu út fyrir að þeir væru að ná yfirhöndinni þegar strákarnir svöruðu með frábærum kafla og náðu aftur 6 marka forystu, 24-18, þegar um kortér lifði leiks. En útspil Gróttu að leika með aukamann í sókninni kom þeim enn og aftur inn í leikinn. Staðan var orðin 26-25 er um fimm mínútur voru til leiksloka.

Nær komust þeir þó ekki og öflugur lokasprettur KA liðsins sá til þess að stigin tvö urðu eftir í KA-Heimilinu með 31-29 sigri sem var vel fagnað. Gríðarlega mikilvæg stig í hús og geta strákarnir verið ánægðir með karakterinn, það leit oft út fyrir að Grótta væri að snúa leiknum sér í vil en alltaf tókst KA liðinu að halda í forystuna og sigla sigrinum að lokum heim.

Tímalína seinni hálfleiks

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 14 mörk þar af fjögur úr vítum. Ólafur Gústafsson, Patrekur Stefánsson og Einar Rafn Eiðsson gerðu allir 4 mörk, Pætur Mikkjalsson gerði 3 og þeir Jóhann Geir Sævarsson og Einar Birgir Stefánsson gerðu allir eitt mark. Nicholas Satchwell varði frábærlega í fyrri hálfleik þar sem hann varði 7 skot en endaði með 8 skot varin í leiknum og Bruno Bernat varði eitt skot á lokakaflanum.

Stemningin á pöllunum var frábær og hafði án nokkurs vafa mikið um það að segja að við héldum út á lokakaflanum. Það er annar mikilvægur heimaleikur strax á föstudaginn þegar HK mætir norður og þá þurfum við aftur á ykkar stuðning að halda!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is