KA/Þór í Bikarúrslitaleikinn!

Handbolti

KA/Þór tryggði sér sæti í sjálfum Bikarúrslitaleiknum með afar sannfærandi 33-16 sigri á liði FH í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins í gærkvöldi. Stelpurnar náðu snemma að stinga af og var sigurinn aldrei í hættu og KA/Þór því komið í úrslitaleik bikarsins annað tímabilið í röð.

Jafnt var á með liðunum á upphafsmínútunum en um leið og stelpurnar okkar náðu taki á spilamennsku gestanna keyrðu þær yfir leikinn. Staðan var 20-7 er flautað var til leikhlés og úrslitin ráðin. Í þeim síðari fengu allir leikmenn að spreyta sig og segir það margt um breidd liðs okkar að þrátt fyrir margar skiptingar jókst munurinn enn fremur.

Lokatölur 33-16 og KA/Þór því komið í úrslitaleikinn þar sem liðið mætir Fram. Leikurinn fer fram klukkan 13:30 á laugardaginn á Ásvöllum í Hafnarfirði og fer miðasala í gegnum miðasöluappið Stubb.

Þetta er annað tímabilið í röð þar sem KA/Þór fer í bikarúrslit en rétt eins og síðast er andstæðingur okkar lið Fram. Fram vann afar sannfærandi sigur síðast en ansi mikið hefur breyst síðan þá. Nú er KA/Þór bæði Íslands- og Deildarmeistari og klárt að miklu meiri spenna og barátta verður í leiknum á morgun.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is