Fréttir

Bikarúrslit um næstu helgi

Allir bikarleikir helgarinnar, bæði fjórðungsúrslit og bikarúrslit karla og kvenna  fara fram í Laugardagshöllinni í Reykjavík um næstu helgi.  KA mætir Fylki kl. 17:00 á laugardag í fjögurra liða úrslitum.  Vinni KA lið Fylkis mætir það sigurvegaranum úr leik Þróttar Reykjavík og Stjörnunnar. Úrslitaleikurinn hefst kl. 15:30 á sunnudag.Við hvetjum gamla KA menn í Reykjavík og nágrenni til að mæta í Laugardalshöllina og hvetja KA menn til sigurs. Áfram KA!!!!!

Öruggur sigur KA manna í seinni leiknum gegn HK

KA menn unnu leikinn gegn HK 3-0 (25-21) (25-20) (25-21). Með sigrinum komst KA upp fyrir Stjörnuna í 2. sæti deildarinnar með 22 stig og á góða möguleika á að ná silfurverðlaunum í deildarkeppninni í ár. Liðið þarf að vinna 2 hrinur gegn Þrótti í síðustu leikjum keppninnar til að tryggja silfrið.

KA vann HK 3-1

KA vann HK 3-1 (25-14) (25-21) (21-25) (25-22) í gær í 1. deild karla. Hið unga lið HK beit frá sér í þriðju hrinu og sýndi ágætan leik á kölfum. Davíð Búi Halldórsson spilaði fyrsta leik sinn með KA á þessu timabili og átti góðan leik.

Kvennalið KA vann blaklið Skautafélags Akureyrar

Kvennalið KA sýndi heldur betur klærnar er þær lögðu Skautafélag Akureyrar í kvöld í hörku leik 2-1. (20-25)(26-24)(15-10). Liðið spilaði glimrandi vel á köflum og eru stelpurnar að taka miklum framförum þessa dagana og greinilegt að Marek Bernat er að gera góða hluti með liðið.

KA liðið mætir Fylki í fjögurra liða úrslitum bikarkeppninnar

Dregið var í undanúrslitum bikarkeppni BLÍ á mánudaginn var.  KA dróst á móti Fylki sem spilar í annarri deild.  Liðið er sýnd veiði en ekki gefin en liðið er með marga reynda blakmenn innanborðs og sýndi m.a. hörkutakta um síðust helgi þegar það lagði 1. deildarlið HK 2-1 í forkeppni bikarsins.

Erfitt bikarmót hjá kvennaliði KA

Kvennaliðinu okkar gekk ekki vel á nýliðinu bikarmóti sem fram fór í KA heimlinu og tapaði öllum sínum leikjum. Þess ber þó að geta að það vantaði tvo lykilleikmenn liðsins þær Auði og Gúðrúnu Jónsdætur sem voru báðar með flensu og mátti liðið illa við fjarveru þeirra. Í staðinn fyrir þær komu inn í liðið tvær bráðefnilegar 13 ára stúlkur úr 4 flokki og stóðu þær sig mjög vel.   

Brosbikarinn í KA heimilinu um helgina

Um helgina fer fram undankeppni 2 í Brosbikarnum 2009. Alls verða 10 lið í mótinu sem verður í KA heimilinu frá kl. 19.00 á föstudag fram til 15.00 á laugardag.  Blakdeild KA sér um framkvæmd mótsins ásamt Blaksambandi Íslands. Kvennalið KA spilar fyrsta leik sinn á mótinu gegn Fylki kl. 19:00 á föstudag.  Karlalið KA spilar ekki á mótinu þar sem það hefur þegar tryggt sér sæti í fjögurra liða úrslitum með því að sigra sinn riðil á fyrra mótinu sem fram fór í Ólafsvík í haust.

Nýjung frá aðalstjórn K.A.

Aðalstjórn hefur ákveðið að hafa opinn viðtalstíma annan fimmtudag í mánuði frá kl 18-19. Tveir aðalstjórnarmenn munu vera í KA-heimili á áðurnefndum tíma til að taka á móti þeim sem vilja koma og ræða um félagið. Næstkomandi fimmtudag, 11. febrúar, verða Guðmundur Guðmundsson, gjaldkeri KA, og Jón Óðinn Waage formaður júdódeildar á staðnum.

Stjarnan – KA, laugardaginn 7. feb. kl. 14.00

KA menn mættu mun ákveðnari til leiks í dag og ætluðu greinilega að vera einbeittari en í fyrri leiknum.  Einnig munaði um það að Aleksander Simeonov var í leikbanni hjá Stjörnunni.  Allt annað var að sjá leik KA og sigruðu þeir fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 22-25. 

Stjarnan – KA, föstudaginn 6. feb. kl. 20.00.

Það var fljótt ljóst að þetta var ekki dagur KA manna.  En leiknum seinkaði um 30 mín. vegna þess að hluta KA liðs vantaði. Rútubílstjórari liðins varð fyrir því óhappi að læsa lyklana inni í rútunni í Boragarnesi og tók það 2 klst. að opna bílinn. Ekki er þó alfarið hægt að skrifa slakan leik leikmanna liðsins á þessa uppákomu þar sem flestir leikmanna liðsins ferðuðust til Garðabæjar með öðrum hætti og fengu eðlilegan undirbúning undir leikinn.