Fréttir

Frábær árangur yngriflokkanna

Fyrstu yngriflokkamótin fóru fram um síðustu og þarsíðustu helgi á Neskaupstað. Skemmst er frá því að segja að KA liðin náðu einhverjum besta árangri sínum á þessum mótum fyrr og síðar.  Sérstaklega voru karlaliðin í 3. og 4. flokki sterk en þau töpuðu ekki hrinu á mótunum.

Tveir góðir sigrar í blakinu

Blaklið KA voru í eldlínunni í dag og unnu bæði mjög sterka sigra. Strákarnir fengu Stjörnuna í heimsókn og unnu 3-1 í mjög jöfnum og spennandi leik. Strax á eftir spiluðu stelpurnar við Þrótt frá Neskaupsstað og eftir frábæran leik urðu þær ofan á í 3-2 sigri. Liðin eru nú bæði á toppnum og virðist ekkert lát á sigurgöngu kvennaliðsins. Stelpurnar eru enn ósigraðar og ljóst er að spennandi vetur er að fara í hönd hjá KA.

Tap gegn HK í fyrsta heimaleiknum

KA strákarnir mættu HK í dag í afar skrautlegum leik. Virtust gestirnir algjörlega máttlausir í upphafi leiks og KA komst í 2-0 án nokkurrar fyrirhafnar. HK gerði sér svo lítið fyrir og vann næstu þrjár hrinur og þar með leikinn 2-3. Í þeim hrinum virtust KA-menn hreinlega ekki hafa nokkra trú á að HK gæti gert þeim skráveifu. Kæruleysi greip um sig og liðið spilaði bara á hálfum snúning og því fór sem fór.

Kvennalið KA vann Ými 3-0

KA-stelpurnar eru enn ósigraðar í blakinu eftir þrjá leiki. Um helgina skellti liðið Ými úr Kópavogi 3-0. Liðið var á köflum að sýna fína takta og reynsluboltarnir Birna Baldursdóttir og Hulda Elma Eysteinsdóttir koma til með að styrkja það mikið í vetur. KA var með yfirhöndina allan leikinn en minnstu munaði þó að Ýmir ynni aðra hrinuna. KA er nú á toppnum í deildinni og verður sú staða að teljast nokkuð óvænt.

Sex leikmenn frá KA valdir í U19 landslið Íslands

Sex leikmenn frá Ka voru valdir í U19 landslið Íslands sem leikur þessa dagana á NEVZA mótinu í Danmörku. Í karlaliðið voru valdir eftirtaldir leikmenn frá KA: Árni Björnsson, Daniel Sveinsson, Jóhann Eiríksson og Sigurbjörn Friðgeirsson. Í kvennaliðið voru valdar systurnar Guðrún Margrét Jónsdóttir og Auður Anna Jónsdóttir.

Kvennalið KA vann Stjörnuna

KA og Stjarnan tókust á í kvennaflokki í blakinu strax á eftir karlaleik sömu liða. Og aftur var boðið upp á 5 hrinu leik og aftur tókst KA að vinna 3-2 (25-20, 23-25, 25-15, 22-25, 15-10).

Karlalið KA vann Stjörnuna í seinni leik helgarinnar

KA tókst að leggja lið Stjörnunnar í miklum baráttuleik á laugardag.  Leikurinn endaði 3-2 (25-21, 25-20, 24-26, 22-25, 15-10) fyrir KA eftir mikil átök og nokkra dramatík.

Kvennalið KA byrjar fyrstu deildina vel

Kvennalið KA byrjar vel keppni sína í efstu deild en liðið lagði lið Þróttar Reykjavík á föstudaginn 3-2 í tveggja tíma maraþon leik sem stóð vel fram yfir miðnættið en leik liðanna var frestað um einn og hálfan tíma vegna veðurs.

Sigur á Íslandsmeisturunum í fyrsta leik

KA vann Íslandsmeistara Þróttar frá Reykjavík 3-1 (25-17, 25-25, 27-29, 25-22) í fyrstu deild karla fyrsta leik sínum á þessu leiktímabili.

Seinkun á fyrstu blakleikjum KA vegna veðurs

Seinka þurfti fyrstu leikjum blakliða KA í kvöld um einn og hálfan tíma vegna veðurs.  Leikur karlaliðsins átti að hefjast í Íþróttahúsi Kennaraháskólans kl. 19:30 en hófst ekki fyrr en um kl. 21.  Lið KA þurfti að bíða í 2 klukkustundir í Borgarnesi en mjög vont veður var undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi í dag.