KA menn mættu mun ákveðnari til leiks í dag og ætluðu greinilega að vera einbeittari en í fyrri leiknum. Einnig munaði um það að Aleksander Simeonov var í leikbanni hjá Stjörnunni. Allt annað var að sjá leik KA og sigruðu þeir fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 22-25.
Önnur hrina var hins vegar afar slök hjá KA og tóku sig upp uppgjafa vandræðin frá fyrri leiknum og fóru margar slíkar í súginn í hrinunni og sigraði Stjarnan auðveldlega 25-16. Þriðja hrinan var jöfn framan af en KA menn náðu ekki að fylgja eftir góðri fyrstu hrinu og töpuðu hrinunni 25-20 og Stjarnan komi 2-1 yfir í leiknum. Fjórða hrinan var hins vegar eign KA manna og heyrðist æ oftar, „no jump“, í þjálfaranum þegar leikmenn fóru í uppgjafarreitinn. Það hafði góð áhrif því KA vann hrinuna auðveldlega 16-25. Oddahrinuna tóku KA menn strax í sínar hendur og sigu örugglega fram úr og komust í 3-8. Létu þeir forystuna aldrei af hendi og sigruðu hrinuna örugglega 8-15. Allt annað var að sjá til KA liðsins í þessum leik og voru menn tilbúnir í slaginn að þessu sinni. Piotr og Filip voru bestu menn KA í þessum leik og skiluðu sínu vel.
Nú er mikilvægt fyrir leikmenn liðsins að læra af því sem aflaga fór í leikjum helgarinnar og taka það jákvæða úr leikjunum og byggja á því til framtíðar fyrir úrslitakeppnina í vor og bikarúrslitin. Það nú ljóst eftir úrslit helgarinnar að KA á nánast enga möguleika á að ná deildarmeistaratitlinum að þessu sinni en á ennþá góða möguleika á að ná öðru sætinu.