Það var fljótt ljóst að þetta var ekki dagur KA manna. En leiknum seinkaði um 30 mín.
vegna þess að hluta KA liðs vantaði. Rútubílstjórari liðins varð fyrir því óhappi að læsa lyklana inni í
rútunni í Boragarnesi og tók það 2 klst. að opna bílinn. Ekki er þó alfarið hægt að skrifa slakan leik leikmanna liðsins
á þessa uppákomu þar sem flestir leikmanna liðsins ferðuðust til Garðabæjar með öðrum hætti og fengu eðlilegan
undirbúning undir leikinn.
Þegar leikurinn hófst var greinilegt að stemningin var ekki KA megin. Uppgjafir brugðust algjörlega og fóru einar 10 slíkar í súginn í fyrstu hrinu. Stjarnan vann hrinuna auðveldlega 25-15. Hrina 2 var heldur betri en sú fyrsta en uppgjafa vandræðin héldu áfram og Stjarnan seig fram úr og þó svo að KA menn næðu aðeins að klóra í bakkann öðru hvoru, þá innbyrti Stjarnan öruggan sigur 25-19. Í þriðju hrinu fór svo að draga til tíðinda. Í upphafi hrinunnar mótmælti Aleksander Simeonov, leikmaður Stjörnunnar, dómi og sýni grófa hegðun gagnvart dómurum leiksins. Fékk hann að líta rautt og gult spjald í sömu hendi og mátti þar af leiðandi ekki koma meira við sögu í leiknum. Einnig fer hann í sjálfkrafa bann í næsta leik. Eftir þetta var hrinan jöfn og spennandi og náðu KA menn upp baráttu sem ekki hafði sýnt sig fyrr í leiknum. Í stöðunni 15-17 fyrir KA fékk KA dæmda á sig vitlausa uppstillingu þótt vandséð væri fyrir hvað. KA menn breyttu stöðu til samræmis við ritaraborð og fengu svo aftur dæmt á sig uppstillingarbrot stuttu síðar. Mikil rekistefna var í kjölfar þessa og fór svo að KA náði ekki að stilla strengi sína eftir þessa rekistefnu og sigraði Stjarnan hrinuna 25-21 og þar með leikinn 3-0.
Greinilegt var á leik KA manna að þeir hafa ekki leikið nú í tvo mánuði og leikmenn liðsins eðlilega ekki í leikæfingu. Það afsakar þó ekki að fullu slakan leik liðsins en t.d. fóru 9 uppgjafir í súginn bara í fyrstu hrinunni.
Ljóst er að brotthvarf liðs Fylkis nú í haust hefur haft verulega slæm áhrif á uppröðun Íslandsmótsins og BLÍ þarf að finna lausn á þessu máli fyrir næst leiktímabil með einhverjum hætti. Það þarf nauðsynlega að fjölga leikjum liða yfir veturinn með einhverjum hætti. Vonandi bætast við fleiri lið í fyrstu deildina að ári.