Karlalið KA vann Stjörnuna í seinni leik helgarinnar

KA tókst að leggja lið Stjörnunnar í miklum baráttuleik á laugardag.  Leikurinn endaði 3-2 (25-21, 25-20, 24-26, 22-25, 15-10) fyrir KA eftir mikil átök og nokkra dramatík.

 

 

KA vann fyrstu 2 hrinunar nokkuð örugglega 25-21 og 25-20, drifnir áfram af stekum uppgjöfum og öflugum sóknarleik.  Emil Gunnarsson og Róbert Hlöðversson héldu Stjörunni á floti í fyrrihluta leiksins með öflugum stökkuppgjöfum.  Þriðja hrinan var í járnum en um miðja hrinuna misstu dómararnir tökin á leiknum í kjölfar nokkurra vafasamra atvika á báða bóga.  Það endað með því að leikmaður KA Piotr Kempisty fékk gult spjald fyrir að mótmæla dómi og í kjölfarið fékk þjálfari KA Marek Bernat einnig gult spjald fyrir sömu sakir.  Í kjölfarið tókst Stjörnunni að vinna hrinuna 26-24 og fjórðu hrinuna strax í kjölfarið 25-22 þó hún hafi verið í járnum mestallan tíman.  Í fimmtu hrinu mættu KA menn ákveðnir til leiks og náðu að rífa upp leikgleði og baráttu.  Liðið barist vel í vörninni og sóknin skilaði sínu. Niðurstaðan varð öruggur 15-10 sigur hjá KA í hrinunni og sigur í leiknum 3-2.

Piotr Kemisty átt mjög góðan leik og skoraði alls 30 stig.  Hann var illviðráðanlegur í sókninni og átti Stjarnan í mesta basli með firnafasta skelli hans. Sem dæmi um það var hann einungis einu sinni blokkaður í gólf í leiknum þrátt fyrir fjölmargar sóknir.  Árni Björnsson spilaði mjög vel í móttökunni og vörninni, var ákveðinn og stjórnaði vörninni af röggsemi.  Daníel Sveinsson átti fínar uppgjafir eins og í fyrri leik helgarinnar og Valgeir Valgeirsson stóð fyrir sínu á miðjunni.  Hilmar átti góðan sprett í sókninni í annarri hrinunni og gekk vel í uppgjöfunum en hefur heilt yfir oft spilað betur í sókninni.  Jóhann Eiríksson var öruggur í sókninni en vantaði að vinna betur með félögum sínum í móttökunni.

Heilt yfir getur KA verið mjög sátt með niðurstöðu helgarinnar.  Liðið lagði Íslandsmeistara Þróttar í fyrsta leik helgarinnar og Stjörnuna, sem tók annað sætið í Íslandsmótinu í fyrra, nú í síðari leiknum.  Það verður síðan spennandi að sjá hvernig liðinu gengur að eiga við lið HK í fyrsta leik sínum á heimavelli eftir hálfan mánuð en lið HK hefur styrkst verulega frá í fyrra með m.a. vegna innkomu hins leikreynda Einars Sigurðssonar sem hefur mest einbeitt sér að strandblaki hin síðari ár og hefur keppt fyrir hönd Íslands m.a. á Ólimpíuleikum smáþjóða.  HK liðið lagði þannig lið Þróttar Rvk. 3-0 í fyrsta leik sínum í síðustu viku og ljóst er að liðið er sterkt. Lið KA og HK eigast við sunnudaginn 25. október í KA heimilinu.