Flýtilyklar
Myndaveislur frá 3-0 sigri KA
KA tók á móti Leikni Reykjavík í þriðju umferð Pepsi Max deildarinnar í gær. Þetta var fyrsti heimaleikur sumarsins hjá KA liðinu en hann fór fram á Dalvíkurvelli. Fjölmargir stuðningsmenn KA gerðu sér ferð til Dalvíkur og voru heldur betur ekki sviknir.
Það dró til tíðinda eftir umkortérs leik þegar Steinþór Freyr Þorsteinsson var felldur innan teigs og var umsvifalaust dæmd vítaspyrna. Hallgrímur Mar Steingrímsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og kom KA í 1-0.
Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleiknum en KA liðið réði ferðinni þó án þess að skapa mikla hættu. Gestirnir bitu hinsvegar frá sér í síðari hálfleiknum og leituðu að jöfnunarmarkinu. Staða þeirra breyttist þó til hins verra á 55. mínútu er brotið var á Hauki Heiðari Haukssyni innan teigs en það var ein af fyrstu sóknum KA liðsins í síðari hálfleiknum.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum
Aftur steig Hallgrímur Mar upp og skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og staðan því orðin 2-0. Skömmu síðar fékk Steinþór Freyr úrvalsfæri eftir frábæra sendingu innfyrir frá Nökkva Þey Þórissyni en Steinþóri brást bogalistin. Strax í kjölfarið kom langbesta færi Leiknismanna er Sólon Breki Leifsson slapp í gegn en Steinþór Már Auðunsson gerði vel í að loka á skot hans.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Ásgeir Sigurgeirsson gekk svo frá leiknum á 70. mínútu þegar hann renndi boltanum í netið eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu og sigurinn í höfn. Skömmu síðar komu þrír ungir leikmenn inn á í lið KA og léku sinn fyrsta deildarleik en það voru þeir Þorvaldur Daði Jónsson, Kári Gautason og Elvar Máni Guðmundsson. Kári varð fyrir því óláni að vera tæklaður af fullum krafti af honum Octavio Paez sem uppskar beint rautt spjald en sem betur fer slapp Kári við alvarleg meiðsl og gat haldið leik áfram.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
Að lokum urðu mörkin ekki fleiri og KA liðið gat fagnað sannfærandi 3-0 sigri og er því komið með 7 stig eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins. Þrátt fyrir að nánast heilt byrjunarlið sé frá vegna meiðsla halda strákarnir áfram sínum dampi og geta verið ansi sáttir með uppskeruna á Dalvíkurvelli.
Næsti leikur er svo útileikur í Keflavík en rétt eins og Leiknismenn eru Keflvíkingar nýliðar í deildinni og hafa komið af krafti inn í deildina og ljóst að krefjandi leikur er framundan þann 17. maí næstkomandi.