Einar Rafn jafnaði met Arnórs - 17 mörk í leik!

Handbolti
Einar Rafn jafnaði met Arnórs - 17 mörk í leik!
Arnór og Einar gerðu mörkin 17 í KA-Heimilinu

Einar Rafn Eiðsson fór hamförum er KA og Grótta skildu jöfn 33-33 í KA-Heimilinu á sunnudaginn en Einar gerði sér lítið fyrir og gerði 17 mörk í leiknum. Þar jafnaði hann félagsmet Arnórs Atlasonar en Arnór gerði einnig 17 mörk í nágrannaslag gegn Þór þann 11. nóvember 2003.

Þessi stórbrotna frammistaða Einars hefur eðlilega vakið mikla athygli en þessi magnaði leikmaður gerði 10 af mörkum sínum úr opnum leik og 7 af vítalínunni. Ekki nóg með það að þá var skotnýtingin algjörlega til fyrirmyndar en hann klikkaði einungis á þremur skotum í leiknum sem gerir 85% skotnýtingu.

Einar er auk þess markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar en hann hefur gert 100 mörk í fyrstu 12 leikjum vetrarins sem gera 8,3 mörk að meðaltali í leik. Undanfarin tvö ár hefur KA átt markakóng deildarinnar en báðir eru þeir örvhentir rétt eins og Einar. Árni Bragi Eyjólfsson var markakóngur 2020-2021 með 163 mörk sem gera 7,4 mörk að meðaltali og Óðinn Þór Ríkharðsson var markakóngur á síðustu leiktíð með 149 mörk eða 7,1 mark að meðaltali í leik.

Arnór Atlason átti metið einn fyrir stórleik Einars en hann gerði 11 af sínum 17 mörkum úr opnum leik gegn Þór og 6 af vítalínunni. Arnór á einnig næsta innslag á félagsmetalistanum en hann gerði 16 mörk í ótrúlegum 34-35 bikarsigri KA á þáverandi meisturum Hauka veturinn 2003-2004 og hampaði KA Bikarmeistaratitlinum í kjölfarið.

Arnór varð markakóngur efstu deildar þennan vetur en hann gerði alls 237 mörk sem gera 9,48 mörk að meðaltali í leik. Hann var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar og sá efnilegasti en þetta afrekaði hann aðeins 19 ára gamall.

Hér má sjá þá sem hafa gert flest mörk í leik fyrir KA:

17 mörk
Arnór Atlason | KA-Þór 11.11.2003
Einar Rafn Eiðsson | KA-Grótta 4.12.2022

16 mörk
Arnór Atlason | Haukar-KA 5.11.2003

15 mörk
Róbert Julian Duranona | Stjarnan-KA 14.2.1996
Hörður Fannar Sigþórsson | KA-Selfoss 29.4.2006
Árni Bragi Eyjólfsson | KA-Valur 1.6.2021

14 mörk
Valdimar Grímsson | Stjarnan - KA 24.11.1993
Róbert Julian Duranona | Selfoss - KA 6.11.1996
Róbert Julian Duranona | KA - Fotex Veszprém (Ungverjaland) 9.2.1997
Arnór Atlason | Valur-KA 14.11.2003
Andrius Stelmokas | Selfoss-KA 1.10.2003
Andrius Stelmokas | KA-ÍR 16.3.2004
Halldór Jóhann Sigfússon | KA-HK 1.10.2004
Árni Bragi Eyjólfsson | ÍR-KA 9.5.2021
Óðinn Þór Ríkharðsson | KA-Grótta 5.12.2021

13 mörk
Valdimar Grímsson | KA-Víkingur 21.09.1994
Patrekur Jóhannesson | KA-KR 25.10.1994
Valdimar Grímsson | Valur-KA 18.3.1995
Bo Stage | KA-Fram 16.10.1999
Guðjón Valur Sigurðsson | KA-Afturelding 21.4.2001
Arnór Atlason | KA-HK 20.2.2002
Halldór Jóhann Sigfússon | KA-Valur 19.3.2005

Þess má geta að árin 2006-2017 lék KA undir merkjum Akureyrar Handboltafélags en Jónatan Magnússon núverandi þjálfari KA skoraði flest mörk í sögu þess liðs þegar hann gerði 15 mörk gegn Víking þann 22. janúar 2009 en það ótrúlega er að hann gerði 11 mörk af 15 af vítalínunni!

Markakóngar KA í efstu deild í handbolta:

Óðinn Þór Ríkharðsson
2021-2022

Óðinn Þór Ríkharðsson gekk í raðir KA fyrir tímabilið 2021-2022 frá liði Team Tvis Holstebro í Danmörku. Hann sló heldur betur í gegn en ótrúleg skottækni hans hreif stuðningsmenn KA strax í fyrsta leik og raðaði hann inn mörkunum. Hann varð að lokum markakóngur Olísdeildar karla en hann gerði alls 149 mörk í 21 leik sem gera 7,1 mark að meðaltali í leik. Óðinn var auk þess í liði ársins hjá HBStatz í hægra horni.

Árni Bragi Eyjólfsson
2020-2021

Árni Bragi Eyjólfsson sneri aftur norður fyrir tímabilið 2020-2021 en hann hafði leikið með yngriflokkum félagsins áður en hann gekk til liðs við Aftureldingu. Hann spilaði gríðarlega vel í liði KA sem steig stórt skref fram á við með sæti í úrslitakeppninni og gerði Árni Bragi 163 mörk sem gera 7,4 mörk að meðaltali. Á lokahófi HSÍ var hann kjörinn besti leikmaður deildarinnar auk þess að vera besti sóknarmaðurinn.

Bjarni Fritzson
2011-2012

Bjarni Fritzson var eini markakóngur sameiginlegs liðs Akureyrar er hann gerði 163 mörk veturinn 2011-2012 en það gera 7,7 mörk að meðaltali í leik. Þá var Bjarni einnig markahæsti leikmaður í sögu hins sameiginlega liðs en hann gerði 709 mörk fyrir Akureyri sem var starfrækt frá árinu 2006 til 2017.

Halldór Jóhann Sigfússon
2004-2005

Halldór Jóhann Sigfússon sneri aftur heim í KA fyrir tímabilið 2004-2005 eftir að hafa leikið með Friesenheim í Þýskalandi. Endurkoma Dóra reyndist ansi farsæl en hann varð markakóngur með 168 mörk eða 8,4 mörk að meðaltali í leik. Dóri hélt aftur út að tímabilinu loknu og gekk til liðs við Tusem Essen.

Arnór Atlason
2003-2004

Arnór Atlason átti stórkostlegt tímabil með KA veturinn 2003-2004 þar sem liðið varð meðal annars Bikarmeistari. Þrátt fyrir ungan aldur fór hann fyrir liði KA og varð markakóngur efstu deildar með 237 mörk sem gera 9,48 mörk að meðaltali í leik. Arnór var í lok tímabils valinn besti leikmaður deildarinnar og sá efnilegasti og gekk í kjölfarið í raðir þýska stórliðsins SC Magdeburgar.

Róbert Julian Duranona
1995-1996

Það vakti mikla athygli þegar Duranona gekk til liðs við KA fyrir tímabilið 1995-1996. Hann varð snemma gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna KA og hann varð markakóngur efstu deildar á sínu fyrsta tímabili með liðinu er hann gerði 194 mörk sem gera 8,8 mörk að meðaltali í leik. Duranona varð fyrsti erlendi leikmaðurinn sem varð markakóngur en hann fékk síðar íslenskt ríkisfang. Einnig var hann valinn besti sóknarmaður deildarinnar.

Patrekur Jóhannesson
1994-1995

Patrekur Jóhannesson varð markakóngur efstu deildar tímabilið 1994-1995 þegar hann gerði 162 mörk sem gera 7,7 mörk að meðaltali í leik. Rétt eins og Valdimar árið áður varð Patrekur markakóngur á sínu fyrsta tímabili með KA. Patrekur var í lok tímabils valinn besti leikmaður deildarinnar.

Valdimar Grímsson
1993-1994

Valdimar Grímsson varð fyrsti markakóngur efstu deildar úr röðum KA tímabilið 1993-1994. Valdimar gerði alls 198 mörk sem gera 9,9 mörk að meðaltali í leik. Valdimar gekk í raðir KA fyrir tímabilið og átti stóran þátt í uppbyggingu liðsins. Liðið lék í fyrsta skipti til úrslita í bikarkeppninni og hampaði titlinum svo ári síðar með Valdimar innan sinna raða.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband