Minningarsjóður Jakobs Jakobssonar

Jakob, Albert og Ragnar
Þrír landsliðsmenn í knattspyrnu. Frá vinstri: Jakob Jakobsson, Albert Guðmundsson, Ragnar Sigtryggsson. Hér klæðist Albert búningi FH-liðisins, en hann þjálfaði og lék með því liði eftir að hann kom frá Frakklandi úr atvinnumennsku.


Punktar um Minningarsjóð Jakobs Jakobssonar
Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Jakobs Jakobssonar og eins og nafn sjóðsins ber með sér og fram kemur í 1. grein skipulagsskrár var hann stofnaður í minningu Jakobs Jakobssonar sem fæddist 20. apríl 1937 og lést af slysförum í Þýskalandi 26. janúar 1964.

Stofnfé sjóðsins var framlag Knattspyrnufélags Akureyrar, andvirði minningarspjalda og önnur framlög sem bárust fyrir 20. apríl 1964.

Í 3ju grein segir: „Tilgangur sjóðsins er að vera til styrktar efnilegum íþróttamönnum á Akureyri, svo sem með því að styrkja þá til náms í íþrótt sinni eða útvega þeim kennslu eða námsaðstöðu.“

Meginreglan varðandi úthlutun úr sjóðnum er sú að eftir að höfuðstóll sjóðsins hefur náð ákveðinni upphæð má úthluta allt að 9/10 tekna næsta almanaksárs á undan.

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn. Skal einn þeirra vera tilnefndur af ættingjum Jakobs, annar af Íþróttabandalagi Akureyrar og hinn þriðji af Knattspyrnufélagi Akureyrar. Sú tilhögun að ÍBA skuli skipa einn fulltrúa má eflaust rekja til þess að á sjöunda áratugnum sendu KA og Þór sameiginlegt lið til þátttöku í Íslandsmóti í knattspyrnu undir merki ÍBA. Og sannarlega var Jakob leikmaður og einn aðal máttarstólpi þess liðs. Af fundargerðum og gögnum sjóðsins má þó ráða að í framkvæmd hafi KA jafnan tilnefnt tvo fulltrúa án atbeina ÍBA.

Stjórn KA fór með málefni sjóðsins í fyrstu en árið 1965 var sjóðnum sett stjórn eins og skipulagsskrá mælir fyrir um. Jakob Gíslason, Jón Stefánsson og Halldór Helgason sátu í þessari fyrstu stjórn. Jón var fulltrúi KA og vörslumaður sjóðsins frá fyrstu tíð allt til þess að hann lést í júní 1991. Með honum í stjórn síðustu árin voru Leifur Tómasson og Haukur Jakobsson. Þeir óskuðu að hverfa úr stjórn og var Friðjón Jónsson tilnefndur fulltrúi ættingja Jakobs en Guðmundur Heiðreksson og Jóhannes Bjarnason voru kosnir fulltrúar KA á aðalfundi félagsins 13. mars 1992 og er Jóhannes vörslumaður sjóðsins.

Í upphafi hafa menn líklega ætlað að tekjur sjóðsins myndu að stærstum hluta koma frá árlegum minningarleik í knattspyrnu eins og skipulagsskrá kveður á um. Raunin var hins vegar sú að þrátt fyrir góðan vilja og stuðning margra aðila var eftirtekjan oft rýr þegar greiddur hafði verið allur kostnaður; ferðir og uppihald aðkomuliðsins, leiga á vallaraðstöðu, auglýsingar o.fl. Sem dæmi má nefna að árið 1968 voru tekjur sjóðsins gkr: 31.800.- þar af var ágóði af fjáröflunarleiknum gkr: 2.350.- Stjórn sjóðsins sótti um að fá fellda niður leigu á íþróttavellinum með bréfi til íþróttaráðs í nóvember 1971 og vísaði til þess að næstu fimm ár þar á undan hefði greidd vallarleiga numið gkr: 76.456 á sama tíma og hreinar tekjur sjóðsins af leikjunum námu gkr: 85.267.-

Íþróttaráð sá sér ekki fært að verða við þessu erindi og því var innheimt 25% leiga öll árin sem leikið var, en síðasti leikurinn fór fram sumarið 1981.

Hin síðari ár hafa tekjur sjóðsins því einkum verið -auk minningargjafa- fjármagnstekjur í einhverri mynd; s.s. vextir, verðbætur, afföll af skuldabréfum o.fl.

Engu að síður hefir sjóðnum tekist bærilega að vera trúr þeim tilgangi sínum; að styrkja efnilega íþróttamenn á Akureyri og alls hafa sextíu og tveir einstaklingar hlotið styrk úr sjóðnum þessi ár. Knattspyrnumenn eru fjölmennastir í þeim hópi alls tuttugu og fimm, skíðamenn og handboltamenn eru tíu, frjálsíþróttamenn sex og fulltrúar annarra íþróttagreina eru færri. Segja má að styrkþegar sem bæði hafa verið úr hópi þjálfara og keppnisfólks komi úr flestum greinum íþrótta sem stundaðar hafa verið á Akureyri á þessu tímabili.

Sú þróun hefur orðið hin síðari ár að styrkþegar hafa einkum komið úr hópi þjálfara þeirra íþróttagreina sem iðkaðar eru innan vébanda KA.

Úthlutun úr sjóðnum hverju sinn skal fara fram hinn 20. apríl eða sem næst þeim degi. Tíu sinnum hefur ekki verið úthlutað úr sjóðnum þ.e.a.s. árin 1970, 76, 81, 83, 88, 90, 93, 2001, 2002 og 2006.

Í stjórn sjóðsins eru:
Vignir Þormóðsson, Magnús Sigurólason og Bjarni Áskelsson.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband